Saga skólans

Fyrsti barnaskólinn á Sauðárkróki var stofnaður og hafin í honum kennsla 3. janúar 1882, en þá var tekið í notkun nýbyggt skólahús sem var á svipuðum slóðum og Verslun Haraldar Júlíussonar er núna. Með auknum íbúafjölda varð skólahúsið brátt of lítið og var þá ráðist í byggingu annars húss, sem tekið var í notkun í október 1908, og er það húsið sem Náttúrustofa Norðurlands vestra var í til skamms tíma. 

Húsnæði skólans við Freyjugötu sem lagt var af haustið 2014 var byggt 1947 og hýsti þá einnig Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki og Iðnskóla Sauðárkróks allt til ársins 1968, er skólahúsið við Skagfirðingabraut var tekið í notkun. Kennsla hófst í gagnfræðaskólahúsinu við Skagfirðingabraut haustið 1968. Fyrstu árin var kennsla gagnfræðastigsins og Iðnskólans þar. 

Árskóli var stofnaður vorið 1998, en þá voru Barnaskólinn á Sauðárkróki og Gagnfræðaskólinn á Sauðárkróki sameinaðir undir eina stjórn. Haustið 2001 var tekin í notkun nýbygging við Árskóla við Skagfirðingabraut með 8 kennslustofum og 3 litlum sérkennslustofum. Auk þess var miðrými skólans breytt og útbúin ný og betri aðstaða fyrir starfsfólk og skrifstofu skólans. Haustið 2013 var tekin í notkun nýbygging við skólann með 6 nýjum kennslustofum, fjölnotastofu, stækkuðum matsal og skólasafni, auk vinnurýmis kennara. Með þessari viðbót var hægt að flytja allt skólastarf undir eitt þak. 

Helstu þættir í þróun skólastarfsins frá stofnun Árskóla eru þessir:

  • Öflugt foreldrasamstarf. Markmið skólans er að stuðla að og leggja rækt við gott samstarf milli heimila og skóla og auka þátttöku foreldra í skólastarfinu. Gott samstarf við heimilin er forsenda farsæls skólastarfs og að nemendum líði vel í skólanum. 

  • Jákvæður agi. Í skólanum eru gerðar miklar kröfur til nemenda varðandi aga, en ávallt er reynt að vinna með öll agamál á jákvæðan hátt og reynt að tryggja að sambærileg mál séu meðhöndluð á sama hátt. 

  • Sjálfsmat. Skólinn er frumkvöðull hér á landi í notkun Gæðagreina við innra mat á skólastarfinu. Árlegar kannanir meðal foreldra,  nemenda og starfsmanna gera okkur kleift að leggja mat á hina ýmsu þætti skólastarfsins og bera þá saman milli ára. 

  • Listir. Lögð er rík áhersla á list- og verkgreinakennslu og leiklist skipar veglegan sess í skólastarfinu. 

  • Danskennsla. Rík hefð er fyrir danskennslu í skólanum, en fyrstu 6 starfsár hans fengu allir bekkir danskennslu eina kennslustund á viku. Í dag er danskennslan í námskeiðsformi nokkrum sinnum á skólaárinu. 

  • Öflugt forvarnarstarf. Mikil áhersla er lögð á að efla forvarnir við skólann og er fundað með nemendum, foreldrum og starfsfólki. Málefni eins og samskipti, geðheilbrigði, kynheilbrigði, aukið sjálfsöryggi og bættari sjálfsmynd barna og unglinga skipa stóran sess í forvörnum skólans. 9. bekkingar Árskóla taka ætíð þátt í Forvarnardegi Embættis landlæknis.  Forvarnaráætlun skólans er birt á vefsíðu Árskóla. 

Olweusarskóli. Í Árskóla hefur verið unnið samkvæmt eineltisáætlun Olweusar frá árinu 2002.