Fyrsti barnaskóli á Sauðárkróki var stofnaður og hafin í honum kennsla 3. janúar 1882, en þá var tekið í notkun nýbyggt skólahús sem var á svipuðum slóðum og Verslun Haraldar Júlíussonar er núna. Með auknum íbúafjölda varð skólahúsið brátt of lítið og var þá ráðist í byggingu annars húss, sem tekið var í notkun í október 1908, og er það húsið sem Náttúrustofa Norðurlands vestra var í til skamms tíma.
Húsnæði skólans við Freyjugötu sem lagt var af haustið 2014 var byggt 1947 og hýsti þá einnig Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki og Iðnskóla Sauðárkróks allt til ársins 1968, er skólahúsið við Skagfirðingabraut var tekið í notkun.
Kennsla hófst í gagnfræðaskólahúsinu við Skagfirðingabraut haustið 1968. Fyrstu árin var kennsla gagnfræðastigsins og Iðnskólans þar.
Árskóli var stofnaður vorið 1998, en þá voru Barnaskólinn á Sauðárkróki og Gagnfræðaskólinn á Sauðárkróki sameinaðir undir eina stjórn. Haustið 2001 var tekin í notkun nýbygging við Árskóla við Skagfirðingabraut með 8 kennslustofum og 3 litlum sérkennslustofum. Auk þess var miðrými skólans breytt og útbúin ný og betri aðstaða fyrir starfsfólk og skrifstofu skólans. Haustið 2013 var tekin í notkun nýbygging við skólann með 6 nýjum kennslustofum, fjölnotastofu, stækkuðum matsal og skólasafni, auk vinnurýmis kennara. Með þessari viðbót var hægt að flytja allt skólastarf undir eitt þak.