Námsver

Námsver Árskóla starfar samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð nemenda með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010. Hlutverk námsversins er að veita nemendum með ýmiss konar fötlun eða þroskafrávik sérhæfð úrræði og einstaklingsmiðað nám. Deildarstjóri sérkennslu ber ábyrgð á daglegum rekstri. Fagfólk námsvers, þ.e. þroskaþjálfar, sérkennarar, kennarar og stuðningsfulltrúar, hafa ákveðna umsjónarnemendur og sjá um allt sem við kemur skólagöngu nemandans í samstarfi við foreldra/forsjáraðila, kennara og aðra starfsmenn skólans.

Í námsverinu er stuðst við mismunandi kennslu- og þjálfunaraðferðir. Í einstaklingsnámskrá má sjá leiðir að markmiðum þar sem fram kemur hvaða aðferðir eru notaðar. Sem dæmi um kennslu- og þjálfunaraðferðir má nefna TEACCH, atferlismeðferð, hlutbundin gögn, kennslubækur, tölvur og tölvuforrit, umbunarkerfi, stýrispjöld og sjónrænt skipulag.

Ýmist er um að ræða einstaklingsvinnu eða vinnu inni í bekk. Mikið er lagt upp úr að nemendur námsvers fylgi jafnöldrum sínum í skólastarfinu. Þar fylgja þeir ýmist námskrá bekkjarins eða sérútfærðu námsefni í þeim fögum sem þeir sækja.