Veikindi - leyfi - óveður

Veikindi - leyfi nemenda

Foreldri/forsjáraðili skal tilkynna veikindi nemenda eins fljótt og kostur er. Þurfi nemandi af heilsufarsástæðum að fá að vera inni í frímínútum skal foreldri/forsjáraðili hafa samband við umsjónarkennara. Umsjónarkennari/deildarstjóri getur gefið leyfi í 1 - 2 daga en skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri ef um lengra leyfi er að ræða. 

Reglur varðandi forföll nemenda í íþróttum og sundi

Foreldri/forsjáraðili skal tilkynna forföll nemanda á skrifstofu skólans áður en íþróttatími hefst, en ekki í íþróttahúsið eða sundlaugina. Ætlast er til að nemendur fari í sturtu eftir íþróttatíma, nema nemendur í 1. og 2. bekk. Láti foreldri/forsjáraðili ekki vita um forföll fær viðkomandi nemandi skráða fjarvist. Engir miðar eru teknir til greina. Nemandi sem ekki getur mætt í íþróttatíma fylgist ekki með kennslunni, en bíður í sal fyrir framan íþróttasal. Sund fellur niður þegar frost er meira en -6°C og hvassviðri. 

Óveður

Þegar veður er það vont að foreldrar/forsjáraðilar treysta börnum sínum ekki til að fara í skólann þá er það alfarið á valdi foreldranna að taka þá ákvörðun. Engin þörf er á að bíða eftir orðsendingu frá skólanum þar að lútandi. Foreldrar / forsjáraðilar þurfa þó að hringja og tilkynna slík forföll til skólans. Vinnureglur skólans eru þær að þegar óveður er að morgni er haft samband við starfsmenn Áhaldahúss sveitarfélagsins. Ef mat þeirra er að hægt sé að halda akstursleið skólabíls opinni er kennsla ekki felld niður, heldur er skólinn opinn þeim nemendum sem mæta. Ef veður versnar á meðan nemendur eru í skóla eru foreldrar / forsjáraðilar beðnir um að sækja börn sín í skólann eða tryggja heimför þeirra á annan hátt. Nemendur eru ekki sendir einir heim gangandi, en reynt er að tryggja heimför þeirra með skólabíl og fylgja þá alltaf starfsmenn skólans nemendunum heim.