4.kafli - Nám og kennsla

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla 2011 eru sex grunnþættir menntunar lagðir til grundvallar í öllu námi. Þeir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Í starfi Árskóla er leitast við að hafa þá að leiðarljósi í efnisvali og inntaki náms, kennslu og leiks. Grunnþættirnir eru settir fram til þess að leggja áherslu annars vegar á samfélagsleg markmið og hins vegar á markmið sem varða menntun sérhvers einstaklings. Í skólastarfinu er því mikilvægt að skipuleggja skólastarfið þannig að nemendur læri að tengja saman viðfangsefnin og að þeir sjái þannig tilgang í því starfi sem fram fer í skólanum.  

Sá skilningur sem lagður er í hvert orð eða hugtak grunnþáttanna á að vera rúmur og lögð er áhersla á að þættirnir séu samtvinnaðir hver öðrum og skólastarfinu öllu. Lögð er áhersla á að kennsla og starfshættir innan skólans fléttist saman við það viðhorf að markmið menntunar sé að gera nemendur hæfa til að spjara sig í daglegu lífi. Hlutverk kennara er að taka frumkvæði að breytingum á skólastarfi og stuðla að því að nemendur verði þar virkir þátttakendur. Þannig miðar almenn menntun að því að efla hæfni nemenda til að leysa hlutverk sín í samfélagi nútímans en hæfnin byggir fyrst og fremst á þekkingu þeirra og leikni.