3.kafli - Helstu áherslur í starfi Árskóla

Í Árskóla starfa nemendur og starfsfólk saman undir einkunnarorðunum lifa, leika, læra.  Skólastarfið byggir á þessum orðum sem fela í sér lífsleikni í sínum víðasta skilningi og leggur grunninn að vegferð skóla sem lærir.

Í Árskóla á öllum að líða vel. Velferð nemenda og starfsfólks er ávallt höfð í fyrirrúmi sem endurspeglast í góðum starfsanda í öllu skólastarfinu.  

Árskóli er virkt lærdómssamfélag.  Rík áhersla er lögð á símenntun starfsfólks og um leið aukna fagmennsku og framsækið skólastarf.  Það skilar sér í fjölbreyttum náms- og kennsluaðferðum til að mæta betur þörfum hvers og eins nemanda, bæði í bóklegu og verklegu námi. Þróunarverkefni af ýmsu tagi eru stór þáttur í innra starfi skólans, jafnt hjá starfsfólki og nemendum. Skólinn er mjög virkur í samskiptum við erlenda skóla og á gott samstarf við vinaskóla í Köge, vinabæ Skagafjarðar. Innra mat í gegnum sjálfsmatskerfið Hversu góður er skólinn okkar? tryggir að skólastarfið er í sífelldri endurskoðun með sjálfsmatsvinnu starfsfólks, nemenda og foreldra. Mikill metnaður ríkir hjá samheldnum starfsmannahópi fyrir hönd skólans. 

Í skólastarfi Árskóla er rík áhersla lögð á leiklist og dans. Allir nemendur skólans eru markvisst þjálfaðir í að koma fram og taka þátt í uppsetningu leikverka á sviði fyrir áhorfendur. Mikill metnaður er lagður í verk allra árganga og er hápunktur leiklistarstarfsins uppsetning leikrits 10. bekkjar í fullri lengd. Leiklistarstarfið og dansmennt eru ríkir þættir í náminu sem stuðla að gleði og ánægju nemenda í skólastarfinu. Tjáning, framsögn og framkoma eykur sjálfstraust, öryggi og styrkir sjálfsmynd nemenda. 

Ríkar hefðir móta skólastarfið í Árskóla.  Þær felast í viðburðardögum af ýmsu tagi, árshátíðum og skólaferðum. Markmið hefðanna er meðal annars að skapa skólanum sérstöðu, viðhalda siðum, efla samskipti nemenda og samkennd, sjálfstraust þeirra og virðingu hver fyrir öðrum. Samfélagið allt, fyrirtæki og stofnanir sýna skólastarfinu velvilja og styðja við viðburði sem skólinn stendur fyrir.