Unglingastig

Lykilhæfni - unglingastig


Tjáning og miðlun

Nemendur taka þátt í umræðum í kennslustundum og á bekkjarfundum. Þeir kynna verkefni sín fyrir samnemendum. Einnig koma þeir hugmyndum og skoðunum sínum á framfæri í rökfærslu, ritunum og skapandi skrifum.

Skapandi og gagnrýnin hugsun

Nemendur vinna með áætlanagerð, vinnuferli og túlkun gagna m.a. í náttúrugreinum, stærðfræði og verkgreinum. 

Sjálfstæði og samvinna

Nemendur eru í öllum námsgreinum hvattir til að taka ábyrgð á eigin námi, sýna frumkvæði og leggja sitt af mörkum í samstarfi við aðra nemendur sem og kennara. Lögð er áhersla á að vinna með styrkleika nemenda og þeir átti sig hverjir þeir eru. Nemendur séu meðvitaðir um að þeir geti á virkan hátt haft áhrif á skólasamfélag Árskóla.

Nýting miðla og upplýsinga

Nemendur nota tæki og tækni á mjög fjölbreyttan hátt. Hver nemandi er með sína eigin spjaldtölvu sem nýtist með margvíslegum hætti í öllum námsgreinum, hvort sem er við upplýsingaöflun, framsetningu verkefna eða sem samstarfstæki með öðrum nemendum. Nemendum er kennt að nota tækin á ábyrgan hátt sem og meðferð upplýsinga og heimilda.

Ábyrgð og mat á eigin námi

Lögð er áhersla á skipulögð og sjálfstæð vinnubrögð í öllum námsgreinum og að nemandinn beri ábyrgð á eigin námi. Nemendur eru hvatttir til að seta sér markmið og meta svo hvernig til tókst. Nemendur meta einnig störf hvers annars.Grunnþættir menntunar - unglingastig


Læsi

Læsi snýst um samkomulag manna um málnotkun og merkingu orða í málsamfélagi og er því félagslegt í eðli sínu. Tölvur og stafræn samskiptatæki teljast víða ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks, heima jafnt sem á vinnustað, og þykja orðið sjálfsögð verkfæri í skólastarfi. Stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi eru því sífellt stækkandi þáttur í skólastarfinu. Heimalestur og leshópar eru á öllu unglingastiginu. Læsi í stærðfræði, náttúrufræði og menningarlæsi er einnig mikilvægur þáttur í náminu. Lögð er áhersla á að lestrarþjálfun sé aldurssvarandi og sé miðuð við forsendur hvers og eins. Markmiðið er að nemandinn taki sem mestum framförum.

Sjálfbærni

Sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomenda í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóðar. Allir nemendur og starfsmenn flokka rusl af samviskusemi. Verkefnið Grænir frumkvöðlar framtíðar er unnið í 9. bekk. Í verkefninu er horft til umhverfisverndar í nærsamfélaginu.

Lýðræði og mannréttindi

Skólar eiga að taka mið af því að undirbúa ungmenni fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Gera þarf ráð fyrir virku samstarfi við grenndarsamfélagið innan sveitarfélagsins. Þar er skólaráðið stór þáttur. Nemendur taka þátt í margskonar verkefnum þar sem lýðræði er mikilvægur þáttur t.d. í stjórn nemendafélagsins og vinaliðaverkefninu. 

Jafnrétti

Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Nokkur þeirra atriða sem jafnréttishugtakið nær utan um eru aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni. Áhersla er á einstaklingsmiðað nám og nemendalýðræði. Aukin áhersla á fjölmenningu hefur verið síðustu ár.

Heilbrigði og velferðÁrskóli, sem heilsueflandi skóli, leggur áherslu á:  jákvæða sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, andlega vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði, skilning á eigin tilfinningum og annarra, tannvernd og tóbaks- og vímuvarnir. Vinaliðaverkefnið er í frímínútum, þar sem nemendur á öllum stigum fara í leiki. Allir bekkir fara vikulega og ganga mílu, skólahreysti, útivist og jóga eru vinsælar valgreinar á unglingastigi.

Sköpun

Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Í Árskóla eru skapandi skil á verkefnum oft möguleiki. Fjölbreytt verkefni gefa nemendum tækifæri að láta reyna á sköpunarkraft og innsæi sitt. Listsköpun er mikilvægur þáttur í skólanum sem sést t.a.m. á metnaðarfullum leiksýningum allra árganga og dansmaraþoni 10. bekkjar.