Lýðræði og mannréttindi

Gagnrýnin hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins eru hornsteinn lýðræðis- og mannréttindamenntunar sem skólum landsins er ætlað að rækta skv. Aðalnámskrá grunnskóla 2011. Virðing fyrir mannréttindum, viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun. Skólar þurfa að mennta börn til að búa í lýðræðisþjóðfélagi svo og að iðka starfshætti sem byggja á lýðræði og mannréttindum í öllu skólastarfi. Skólasamfélagið allt þarf að finna til samábyrgðar, meðvitundar og virkni til að svo megi verða. 

Í Árskóla er markvisst unnið að því að fá einstaklinga og nemendahópa til að taka afstöðu til siðferðilegra álitamála. Hver einstaklingur hefur möguleika á að taka þátt í mótun skólastarfsins með gagnrýninni og opinni samræðu. Bekkjarfundir eru haldnir reglubundið hjá öllum árgöngum og eru m.a. vettvangur þeirrar samræðu. Lögð er áhersla á lýðræðis- og mannréttindamenntun og virkni nemenda til ígrundunar. Nemendur taka þátt í mati á skólastarfinu, bæði með árlegum nemendakönnunum sem og með þátttöku í mati skólastarfs með sjálfsmatsaðferðum skólans, Hversu góður er skólinn okkar? Í skólastarfinu er lögð áhersla á þjálfun lýðræðislegra vinnubragða, bæði í almennu námi og í félagsstörfum. Formenn 10. bekkinga, drengur og stúlka, leiða félags- og fjáröflunarstarf á unglingastigi og fulltrúar nemenda í 7. - 10. bekk skipa stjórn nemendafélags Árskóla. Reynt er að höfða til áhuga nemenda og vilja þeirra til þess að taka virkan þátt í skólastarfinu og samfélaginu á jákvæðan hátt.