Mat á námsmarkmiðum skólans sem unnin hafa verið út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár.
Námsmat í öllum árgöngum er unnið út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár, en þar segir að markmið skólastarfs séu margvísleg og hægt sé að fara ýmsar leiðir til að ná þeim. Því verða matsaðferðir að vera fjölbreyttar. Þær skulu vera í samræmi við hæfniviðmið, endurspegla áherslur í kennslu og taka mið af nemendum. Námsmat á að vera áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt. Meta þarf alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af viðmiðum í aðalnámskrá (Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 27).
Námsmarkmið skólans, sem unnin hafa verið út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár, eru notuð sem grundvöllur námsmats. Námslotur eru gerðar í Mentor. Námsmarkmið skólans eru tengd við námsloturnar. Hvert markmið sem valið er í lotuna er metið til einkunnar út frá hæfni og hægt er að fylgjast með framvindu námsmats á aðgangi nemenda og foreldra í Mentor.
Við mat á markmiðum á yngsta og miðstigi er notaður matskvarðinn:
Framúrskarandi
Hæfni náð
Á góðri leið
Þarfnast þjálfunar
Hæfni ekki náð
Við mat á markmiðum á unglingastigi er notaður matskvarðinn A, B+, B, C+, C og D. Við lok 10. bekkjar er skylt að nota þennan matskvarða, en sú ákvörðun var tekin innan skólans að nota hann við lokaeinkunn á mið- og unglingastigi.
Útskýringar á matskvarða:
A Hæfni og frammistaða í námi er framúrskarandi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
B+ Meginþorra markmiða B og hluta markmiða A náð.
B Hæfni og frammistaða í námi er góð með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
C+ Meginþorra markmiða C og hluta markmiða B náð.
C Hæfni og frammistaða í námi er sæmileg með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
D Hæfni og frammistöðu í námi er ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.
Gefin er lokaeinkunn í hverri námsgrein í janúar og maí með bókstafakvarða á mið- og unglingastigi, en með 5 stiga kvarða á yngsta stigi.
Í 10. bekk er námsárangur að vori metinn í bókstöfum á kvarðanum A-D út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár og birtur annars vegar í Mentor og hins vegar á útskriftarskírteini. Að baki því mati liggja fjölmörg matsviðmið og önnur gögn um hæfni nemendans í hverri námsgrein.