Námsmat

Námsmat er órjúfanlegur hluti af skólastarfinu og er vinna nemenda metin reglulega, hvoru tveggja í gegnum formlegt og óformlegt mat. Formlegu námsmati er ætlað að veita leiðbeinandi upplýsingar um námsframvindu einstakra nemenda og nemendahópa og kanna hvort markmiðum námskrár sé náð. Tilgangur námsmats er einkum þríþættur: Að örva og hvetja nemendur, að veita nemendum, foreldrum þeirra og forráðamönnum upplýsingar um námsgengi og að veita skóla upplýsingar sem gagnast við frekari skipulagningu náms. Námsmat skal vera fjölbreytt og meta ólíka þætti náms, s.s. þekkingu, leikni og hæfni en jafnframt ber að koma til móts við nemendur með sértæka námsörðugleika. Það er gert með aðlögun námsmats að sérþörfum þeirra, s.s. lengdum próftíma, sérhönnuðum prófum, sérhæfðri aðstoð, notkun hjálpargagna og munnlegu námsmati. Gert er ráð fyrir að kennarar meti framgang náms jafnt og þétt allt skólaárið og noti til þess fjölbreyttar matsaðferðir. 

  • Sjálfsmat eða jafningjamat nemenda, en slíkar aðferðir henta vel til þess að auka ábyrgð nemenda á eigin námi, jafnframt því að virkja nemendur í umræðum um eigin skilning og framfarir.

  • Mat kennara á vinnu, virkni og hegðun nemenda í kennslustund og er þá notast við matslista eða annað skráningarkerfi.  

  • Mat á fjölbreyttum verkefnum nemenda, sem reyna á ólíka hæfnisþætti náms. Verkefnin eru ýmist hópverkefni eða einstaklingsverkefni.

  • Kannanir, skriflegar, munnlegar eða verklegar, sem gefa til kynna hvort nemendur hafi náð einstökum námsmarkmiðum.

  • Próf, skrifleg, munnleg eða verkleg, sem kanna hvort áfanga- eða árgangamarkmiðum sé náð. 

  • Stöðluð skimunarpróf fyrir nemendur og nemendahópa, sem ætlað er að vera greinandi fyrir ýmiss konar frávik. Skimunarpróf eru lögð fyrir ár hvert, auk þess sem lestrarlag og lestrarhraði er kannaður u.þ.b. mánaðarlega í 2.–7. bekk. Nánari útlistun á skimunarprófum er að finna í kaflanum um stoðkerfið.

  • Mat á námsmarkmiðum skólans sem unnin hafa verið út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár.

    Námsmat í öllum árgöngum er unnið út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár, en þar segir að markmið skólastarfs séu margvísleg og hægt sé að fara ýmsar leiðir til að ná þeim. Því verða matsaðferðir að vera fjölbreyttar. Þær skulu vera í samræmi við hæfniviðmið, endurspegla áherslur í kennslu og taka mið af nemendum. Námsmat á að vera áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt. Meta þarf alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af viðmiðum í aðalnámskrá (Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 27).

    Námsmarkmið skólans, sem unnin hafa verið út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár, eru notuð sem grundvöllur námsmats. Námslotur eru gerðar í Mentor. Námsmarkmið skólans eru tengd við námsloturnar. Hvert markmið sem valið er í lotuna er metið til einkunnar út frá hæfni og hægt er að fylgjast með framvindu námsmats á aðgangi nemenda og foreldra í Mentor. 

    Við mat á markmiðum á yngsta og miðstigi er notaður matskvarðinn: 

    Framúrskarandi 

    Hæfni náð 

    Á góðri leið

    Þarfnast þjálfunar 

    Hæfni ekki náð

    Við mat á markmiðum á unglingastigi er notaður matskvarðinn A, B+, B, C+, C og D. Við lok 10. bekkjar er skylt að nota þennan matskvarða, en sú ákvörðun var tekin innan skólans að nota hann við lokaeinkunn á mið- og unglingastigi.

    Útskýringar á matskvarða:

    A Hæfni og frammistaða í námi er framúrskarandi með hliðsjón af   hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

    B+ Meginþorra markmiða B og hluta markmiða A náð.

    B Hæfni og frammistaða í námi er góð með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

    C+ Meginþorra markmiða C og hluta markmiða B náð. 

    C Hæfni og frammistaða í námi er sæmileg með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

    D Hæfni og frammistöðu í námi er ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

     

    Gefin er lokaeinkunn í hverri námsgrein í janúar og maí með bókstafakvarða á mið- og unglingastigi, en með 5 stiga kvarða á yngsta stigi.

    Í 10. bekk er námsárangur að vori metinn í bókstöfum á kvarðanum A-D út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár og birtur annars vegar í Mentor og hins vegar á útskriftarskírteini. Að baki því mati liggja fjölmörg matsviðmið og önnur gögn um hæfni nemendans í hverri námsgrein.