Skipulag kennslu

Við skipulag kennslu er haft að leiðarljósi að mæta námsþörfum nemenda til að þeir tileinki sér þekkingu, leikni og jákvætt viðhorf svo þeir öðlist þá hæfni sem stefnt er að í námi. Lögð er áhersla á að koma til móts við nemendur á forsendum hvers og eins. Reynt er að velja viðfangsefni  og verkefni af kostgæfni sem eru hæfilega krefjandi til að gera öllum nemendum kleift að ná hámarks námsárangri. Lögð er áhersla á að flétta grunnþættina sex inn í skólastarfið. Ennfremur er markviss áhersla lögð á samvinnu nemenda. Nemendum er gerð grein fyrir viðfangsefnum og markmiðum þeirra og leiðum til að uppfylla markmiðin. Á grundvelli sameiginlegra gilda sköpum við hvetjandi námsumhverfi þar sem notaðar eru fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir.

Tölvu- og upplýsingamennt er nýtt í öllum námsgreinum og  allir nemendur skólans hafa aðgang að spjaldtölvu sem tæki til náms. Í yngri bekkjum er um bekkjarsett að ræða, en í 5. - 10. bekk hafa allir nemendur sitt tæki sem gefur möguleika á fjölbreyttri notkun. Samþætting verklegra og bóklegra námsgreina hefur aukist. Má þar t.d. nefna fjölíðina sem er samvinnuverkefni fjögurra list-  og verkgreina í Árskóla í 3. – 8. bekk. Leggja ber áherslu á að auka samþættingu námsgreina enn frekar.