Sjálfsmat

Samkvæmt 35. og 36. grein grunnskólalaga frá 2008 ber öllum grunnskólum að framkvæma kerfisbundið sjálfsmat. Tilgangur þess er að kanna hvort markmiðum skólans hefur verið náð, greina sterka og veika þætti í skólastarfinu og skapa þannig grunn að umbótum. Margir ólíkir þættir hafa áhrif á skólastarf og skólar verða að koma til móts við ólíkar þarfir. Sjálfsmatið verður stöðugt að vera í gangi og er langtímamiðað. Með því fer fram víðtæk gagnasöfnun um skólastarfið. Sjálfsmat skóla er því  leið til þess að miðla þekkingu á skólastarfi og er liður í þróun og vexti hvers skóla. Sjálfsmat, umbætur og mat á þeim eru því lykill að því að gera góðan skóla betri.

Sjá grunnskólalögin nánar hér.

Samkvæmt grunnskólalögum er það í verkahring sveitastjórna að  sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5., 6. og 37. gr., og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Samkvæmt 38. grein grunnskólalaga kemur fram að menntamálaráðuneytið annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum skv. 37. gr. og með sjálfstæðri gagnaöflun.

Skólar geta valið hvaða aðferðum þeir beita í sjálfsmatsvinnunni. Ákveðin viðmið sem skólum er ætlað að uppfylla í sjálfsmatsvinnunni eru gefin út á vegum ráðuneytisins svo og leiðbeiningar um sjálfsmat. Til að mat teljist uppfylla viðmið laga þarf það að vera formlegt, altækt, áreiðanlegt, samstarfsmiðað, umbótamiðað, árangursmiðað, stofnana- og einstaklingsmiðað, lýsandi, greinandi og opinbert.

Frá árinu 1999 hefur starfsfólk Árskóla byggt sjálfsmatið á skoska sjálfsmatskerfinu How Good Is Our School. Starfsfólk Árskóla er brautryðjendur í notkun þeirrar aðferðar hér á landi. Frá upphafi hefur starfsfólk skólans notið styrkrar leiðsagnar frá skólastjórnendum og starfsfólki í skosku menntakerfi sem hefur einkennst af mikilli og góðri samvinnu við innleiðingu og þróun innra mats á skólastarfi.

Skotarnir hafa uppfært efnið nokkrum sinnum. Árið 1999 var skoska matskerfið þýtt og staðfært af starfsfólki hjá Skólaskrifstofu Skagfirðinga og var þá nefnt Gæðagreinar í íslenskri þýðingu. Árið 2010 var þriðja útgáfa Skotanna af sjálfsmatskerfinu, How good is our school 3, the journey to excellence, þýdd yfir á íslensku og nefndist þá Gæðagreinar 2. Skotarnir uppfærðu sjálfsmatsefnið enn á ný og gáfu út í september 2015, How good is our school, 4. útgáfa. Starfsfólk Fræðsluþjónustu Skagafjarðar vann að þýðingu á þeirri útgáfu og á vorið 2016 var íslenska þýðingin Hversu góður er grunnskólinn okkar? gefin út og í kjölfarið byrjað á því að meta skólastarf í Árskóla með þeirri útgáfu. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á sjálfsmatskerfinu með fjórðu útgáfunni, lykilþáttum og gæðagreinum hefur verið fækkað og gert ráð fyrir aukinni fjölbreytni varðandi matsferlið. Jafnframt er lögð áhersla á að skólar aðlagi matskerfið enn frekar að sérstöðu hvers skóla og bæti við gæðaviðmiðum um skólastarf við þau gæðaviðmið sem sett eru fram í hverjum lykilþætti. Kjarni sjálfsmatsaðferðarinnar er þó enn sá hinn sami, en nýjungarnar eru til þess fallnar að hægt verði að efla gæði umbótamiðaðs innra mats þar sem stefnan er sett á framúrskarandi gæði skólastarfs. Sem fyrr snýst kjarni sjálfsmatsins um áhrif skólastarfs á nemendur.

Sjálfsmatsvinna í gegnum Gæðagreinana er ein af grunnstoðum skólastarfs í Árskóla. Allir starfsmenn taka virkan þátt í matsvinnunni. Nemendur taka reglubundið þátt í mati á skólastarfinu. Stjórn nemendafélagsins hefur tekið þátt í að búa til ný gæðaviðmið um skólastarf með sýn nemenda að leiðarljósi. Foreldrar/forsjáraðilar hafa komið að mati á skólastarfinu með sjálfsmatsaðferð skólans.

Árið 2003 var Árskóli í úrtaki menntamálaráðuneytisins þar sem lagt var mat á sjálfsmatsaðferðir nokkurra skóla. Hlaut sjálfsmatskerfi skólans þá fullt hús stiga. Árskóli var einnig í úrtaki menntamálaráðuneytisins haustið 2009 vegna sjálfsmatsaðferða. Heildarniðurstöður úttektar bárust frá menntamálaráðuneytinu í bréfi dagsettu 22. janúar 2010. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Í fimm af þeim 29 grunnskólum sem voru í úttekt haustið 2009, eru bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og um framkvæmd sjálfsmats uppfyllt að öllu leyti. Árskóli er einn þessara skóla og fagnar menntamálaráðuneytið góðum árangri og vel unnum störfum við sjálfsmat í skólanum. Ráðuneytið væntir þess að skólinn vinni áfram af sama metnaði við sjálfsmat.“

Einn þáttur sjálfsmatsins felst í því að afla gagna með viðhorfakönnunum. Árskóli notar vefkerfið Skólapúlsinn  til að leggja fyrir nemenda-, foreldra- og starfsmannakannanir. Nemendakannanir eru lagðar fyrir alla nemendur í 6. – 10. bekk á hverju skólaári en foreldra/forsjáraðilakönnun og starfsmannakönnun eru lagðar fyrir annað hvert ár. Vefkerfi Skólapúlsins hýsir bæði verkefni Skólapúlsins og verkefni Skólavogarinnar. Skólavogin er tæki sem mörg sveitarfélög nýta, þ.á.m. Sveitarfélagið Skagafjörður. Kerfið heldur m.a. utan um ýmsar rekstrarupplýsingar um skólastarfið og skilar samanburði á viðhorfi nemenda, foreldra/forsjáraðila og starfsmanna í skólum við aðra grunnskóla landsins í gegnum kannanir Skólapúlsins. Niðurstöður úr viðhorfakönnunum Skólapúlsins eru teknar saman og birtar í sjálfsmatsskýrslu skólans sem birt er á heimasíðu í lok hvers skólaárs. Auk þess svarar starfsfólk skólans í lok hvers skólaárs árlegri skimun sem byggð er á gæðaviðmiðum úr sjálfsmatsaðferð skólans Hversu góður er grunnskólinn okkar? og þeim gæðagreinum sem starfsfólk skólans hefur búið til um fjölmarga þætti skólastarfsins. Skimunin er lögð fyrir í kannanakerfinu Google Forms og niðurstöður hennar birtar í sjálfsmatsskýrslu skólans.