Forvarnar- og heilsustefna

Það er stefna Árskóla að halda úti svo öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi að sérhver nemandi útskrifist án þess að ánetjast vímuefnum; hvort sem um ræðir tóbak, áfengi eða önnur vímuefni. Markmiðið er að einstaklingurinn haldi þessum viðhorfum til framtíðar. Til að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á uppbyggilega forvarnarfræðslu,  heilbrigt félagslíf, ástundun tómstunda og íþrótta og að rækta heilbrigð vinasambönd: Í Árskóla er góð aðstaða til íþróttakennslu, öflugt stoðkerfi og í mötuneyti skólans er boðið upp á fjölbreyttan morgunverð og heitan mat í hádeginu. Lögð er áhersla á að taka þátt í heilsueflandi atburðum eins og t.d. Göngum í skólann og Skólahreysti. Einnig er Íþróttahátíð Árskóla fastur liður í skólastarfinu.

  • Unnið er eftir forvarnaráætlun grunnskólanna í Skagafirði og áætlunum frá heilsueflandi grunnskólum. Olweusaráætlunin er einnig hluti af forvarnarfræðslu skólans. 

  • Árskóli leggur áherslu á að vinnuaðstaða starfsfólks og nemenda sé sem best.

  • Í Árskóla er unnið samkvæmt stefnu Lýðheilsustöðvar varðandi næringu og hollustu.

Heilsustefna Árskóla

Árskóli er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli sem Landlæknisembættið stendur fyrir og fær með því ráðgjöf og stuðning varðandi heilsueflingu innan skólans.

Samkvæmt Aðalnámskrá Grunnskóla þá er heilbrigði og velferð einn af grunnþáttum skólastarfs. Að vera heilsueflandi grunnskóli felur í sér að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks, í samvinnu við heimili og nærsamfélag.

Áhersluþættir stefnunnar eru: Nemendur, nærsamfélag, mataræði/tannheilsa, hreyfing/öryggi, lífsleikni, geðrækt, heimili og starfsfólk.

Það er stefna Árskóla að bæta heilsu og líðan þeirra sem nema og starfa við skólann. Heilsustefnunni er ætlað að hafa áhrif á allar daglegar venjur og allt skólastarf og miðar að því að skapa skólasamfélag sem hvetur nemendur og starfsfólk til þess að tileinka sér heilsusamlega lífshætti og eykur vitund um mikilvægi þess að hugsa vel um líkama og sál. Það er mikilvægt að skapa snemma góða siði er varða heilsu okkar því það stuðlar að frekari árangri og vellíðan út í lífið. Skólinn skipar þar stórt hlutverk og á að vera fyrirmynd hvað þetta varðar. Forvarnir og heilsuefling er sameiginlegt verkefni allra sem að skólastarfinu koma og með því að taka þátt í verkefni Heilsueflandi grunnskóli fáum við tækifæri til þess að standa okkur enn betur í þeim efnum.