Námsaðlögun

Námsleg staða nemenda er ólík og því er lögð áhersla á að meta hvern nemanda og hvaða úrræði henta best. Deildarstjóri stoðþjónustu hefur yfirumsjón með og annast skipulagningu og ráðgjöf á allri sérkennslu, stuðningskennslu og stuðningi í skólanum.

Sérkennsla  felur í sér breytingar á  námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og /eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Tekið er mið af þörfum og hæfileikum hvers einstaklings og leitast er við að ná þessum markmiðum með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi. Unnið er samkvæmt einstaklingsnámskrá sem sérkennari og umsjónarkennari útbúa í hverju tilviki fyrir sig í samráði við foreldra/forsjáraðila og annað starfsfólk. 

Stuðningskennsla er vinna með nemendum sem þurfa á stuðningi að halda í námi til að vinna að markmiðum árgangsins. Metið er hverju sinni hvernig best er að standa að því.

Stuðningur er þar sem stuðningsfulltrúar aðstoða kennara við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að auka færni og sjálfstæði nemenda, hvort heldur sem er námslega eða félagslega. 

Hafi foreldrar/forsjáraðilar áhyggjur af námslegu gengi barna sinna er fyrsta skrefið að leita til umsjónarkennara. Umsjónarkennari ræðir í framhaldi af því við deildarstjóra stoðþjónustu eða náms- og starfsráðgjafa til að finna lausnir. Góð samvinna milli allra þeirra sem koma að nemendum er forsenda árangursríks starfs.  

Teymi eru mynduð utan um nemendur með sérþarfir af ýmsu tagi til að halda utan um málefni þeirra og námsframvindu. Mjög oft er um að ræða nemendur með þroskafrávik, sértæka námsörðugleika og/eða aðrar sérþarfir. Fundir eru að öllu jöfnu haldnir á 6 – 8 vikna fresti. Í teymunum sitja foreldrar, umsjónarkennari, deildarstjóri stoðþjónustu, þroskaþjálfi/sér- og stuðningskennari, stuðningsfulltrúi, auk aðila frá tengslastofnunum ef við á.