Teymiskennsla

Starfsfólk Árskóla hefur frá árinu 2009 unnið markvisst að starfsþróunarverkefnum sem hafa það að markmiði að nýta mannauðinn sem fyrir er í skólanum, til að auka fagmennsku hvers og eins, læra hvert af öðru og efla samvinnu. Þetta hefur verið gert með ýmis konar fræðslu og fyrirlestrum fagmanna, félagastuðningi, faglestri, sameiginlegri ígrundun og handleiðslutækni. 

Teymiskennsla byggir á samvinnu. Teymiskennsla felur í sér tvo eða fleiri kennara/starfsmenn sem skipuleggja, framkvæma og meta nám fyrir fjölbreyttan nemendahóp þar sem sveigjanleiki og námsaðlögun á sér stað eftir þörfum. Hvert teymi tekur sameiginlega ábyrgð á kennslu nemenda og notar til þess fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir. Meðlimir teymis deila reynslu og nýta styrkleika hvers og eins til að hámarka árangur nemenda og til að verða sjálfir betri fagmenn.

Haustið 2013 var tekin upp teymiskennsla í Árskóla sem segja má að sé raunhæft framhald þeirra þróunarverkefna sem unnið hefur verið að. Bekkjardeildir innan árganga voru lagðar niður og hverjum árgangi kennt saman. Tveir til þrír kennarar vinna saman í teymi í hverjum árgangi auk stuðningsfulltrúa eftir þörfum hópsins. Á unglingastigi er teymiskennslan að hluta til greinaskipt, en auk þess mynda umsjónarkennarar á unglingastigi einnig teymi í hverjum árgangi. Flestir hópar hafa til umráða tvær kennslustofur þannig að svigrúm er til að skipta árganginum í hópa ef þannig ber undir. Auka kennslustofur eru einnig nýttar fyrir smærri nemendahópa í kjarnagreinum. Lögð er áhersla á að hóparnir séu ekki alltaf þeir sömu þannig að nemendur upplifi sig sem eina heild í hverjum árgangi.