Sjálfsmatsaðferð og framkvæmd mats

Hversu góður er grunnskólinn okkar?

Í sjálfsmatskerfinu Hversu góður er grunnskólinn okkar? byggir líkanið á því að skólastarfinu sé skipt í þrjá lykilþætti, sem flestir eru síðan greindir í tvo eða fleiri undirþætti eða þemu.

 1. Forysta og stjórnun

 2. Námsskilyrði

 3. Velgengni og árangur

Þegar mat á einstaka gæðagreinum fer fram liggja ávallt fyrir þrjár grundvallarspurningar. Þær eru eftirfarandi:

 1. Hvernig stöndum við okkur?

 2. Hvernig vitum við það?

 3. Hvað gerum við næst?

Með sjálfsmatsefninu fylgir einkunnaskali sem gerir ráð fyrir einkunnagjöf á bilinu 1-6. Sett  eru fram viðmið um einkunnina 5 eða mjög gott, sem merkir að styrkleikar einkenni ákveðið svið skólastarfsins. Hljóti skóli einkunnina 6 í einhverjum gæðagreini þarf starfið í þeim þætti að vera framúrskarandi á landsvísu og skólinn leiðandi á því sviði eða að matsaðilar telja það starf sem við kemur tilteknum gæðagreini sé þess verðugt að útbreiða og kynna til annarra.

Framkvæmd matsins:

Gerð er áætlun til þriggja ára um þá þætti í skólastarfinu sem leggja á fyrir til mats. Áætlunin tekur til þeirra þriggja lykilþátta sem sjálfsmatskerfið Hversu góður er grunnskólinn okkar? byggir á auk þeirra gæðagreina sem starfsfólk Árskóla hefur búið til og byggja á sérstöðu skólans. Sjá má þriggja ára áætlun um sjálfsmat í Árskóla nánar í árlegri sjálfsmatsskýrslu skólans.

Sjálfsmatsteymi er starfandi í Árskóla en teymið skipa fulltrúar starfsfólks á hverju stigi, deildarstjórar stiga og sérkennslu ásamt kennsluráðgjafa. Hlutverk sjálfsmatsteymis er að annast skipulag, fyrirlögn og eftirfylgni mats og umbóta. Starfsfólk skólans vinnur reglubundið að matinu í matshópum, skipting fer eftir aðstæðum og matsþáttum hverju sinni. Tvö matseyðublöð fylgja hverjum gæðagreini, annars vegar dæmi um gæðaviðmið og hins vegar dæmi um gagnlegar spurningar sem snúa að gæðagreininum. Ætlast er til þess að skólar meti ýmist gæðagreininn í heild sinni eða velji gæðaviðmið og/eða gagnlegar spurningar úr matseyðublöðunum til mats og umbóta. Jafnframt eru skólar hvattir til að bæta við gæðaviðmiðum sem snúa að sérstöðu skólans og aðlaga með þeim hætti sjálfsmatskerfið að skólastarfi á hverjum stað.

Hver matshópur ígrundar atriðin sem lögð eru fyrir til mats hverju sinni og gefur þeim einkunnir skv. einkunnaskalanum sem fylgir efninu. Matsaðilar koma sér svo saman um eina heildareinkunn sem gefin er í lokin fyrir gæðagreininn sem liggur fyrir til mats. Í matsvinnunni er aðalatriðið að styrkleikar og þeir þættir sem þarfnast úrbóta í gæðagreininum séu dregnir fram, rökstuddir og skráðir. Gjarnan er talað um „sönnunargögn“ í þessu tilliti.

Þegar matsvinnunni er lokið er umbótaáætlun unnin á grunni niðurstaðna. Þar eru markmiðssettar umbótatillögur settar fram, þær tímasettar og tillögur gerðar um hverjir eigi að hafa umsjón með að þeim sé framfylgt. Viðmið eru einnig sett fram um hvernig meta eigi árangur umbótanna.

Draga má saman og skilgreina vinnubrögðin í mati með aðferðum sjálfsmatskerfisins Hversu góður er grunnskólinn okkar? í fimm skrefum:

 1. Skilgreining lykilþátta, undirþátta eða þema eftir því sem við á

 2. Skilgreining viðmiða, hvað þarf til að standa undir einkunninni 5 og viðhalda henni.  Einkunnaskali frá 1-6 skilgreinir að auki gildi einkunna í matsvinnunni. Hæsta mögulega gefin einkunn er 6, eða framúrskarandi. Skotarnir gera ráð fyrir utanaðkomandi mati og staðfestingu á réttmæti slíkrar einkunnar þegar hún er gefin af starfsfólki skóla. Ekki er formlega unnt enn sem komið er hér á landi að kalla eftir slíkri endurgjöf utanaðkomandi aðila

 3. Greining sterkra þátta í skólastarfi svo og þátta sem þarfnast umbóta, umsögn/rökstuðningur og einkunnagjöf

 4. Skilgreining leiða til að ná hámarkseinkunn, eða að viðhalda henni. Stefnumótun í umbótaáætlun eftir því sem við á.

 5. Eftirfylgni umbóta.

 

Yfirlit gæðagreina

Yfirlit yfir þemu innan gæðagreina

Einkunnaskali