See the Good! eða Sjáðu styrkleikann! eins við köllum verkefnið á íslensku er finnskt verkefni.
Hugmyndafræðin á bakvið gildi styrkleikaþjálfunar kemur frá jákvæðri sálfræði.
Jákvæð sálfræði er rannsóknarsvið innan sálfræðinnar og er vísindaleg nálgun á jákvæða mannlega eiginleika. Markmiðið er að rannsaka hvað reynist fólki vel og stuðlar að vellíðan þess. Athygli er beint að því hvað fær einstaklinga, hópa og stofnanir til að blómstra og hvaða breytur byggja undir og viðhalda jákvæðri heilsu og andlegri vellíðan.
Út frá rannsóknarniðurstöðum á sviði jákvæðrar sálfræði hafa verið þróuð svokölluð jákvæð inngrip en það eru markvissar athafnir eða hagnýtar æfingar sem miða að því að rækta með sér jákvæðar tilfinningar, breyta hegðun eða þróa hugræn ferli. Það besta við þessi jákvæðu inngrip er að þau eru flest, ef ekki öll, almenningi aðgengileg og þurfa ekki að kosta neitt.
Að þekkja og nýta styrkleika sína er gott dæmi um það sem rannsóknir innan jákvæðu sálfræðinnar hafa sýnt að stuðli að aukinni andlegri vellíðan.
Styrkleikar eru jákvæðir eiginleikar fólks sem birtast í hugsunum, tilfinningum og hegðun. Til að teljast styrkleikar þurfa þeir að vera til staðar þvert á aðstæður og tíma. Auk þess verða þeir að bæta við lífsgæði og orku einstaklingsins sjálfs, hafa siðferðislegt gildi og ef þeir eru notaðir til að hafa lítillækkandi áhrif á aðra teljast þeir ekki sem styrkleikar.
Styrkleika er hægt að efla og styrkja með aukinni og markvissri notkun.
Þegar við þekkjum styrkleika okkar og notum þá markvisst í mismunandi aðstæðum:
-
stuðla þeir að aukinni vellíðan.
-
auka þeir sjálfsöryggi, sjálfsvirðingu og bjartsýni.
-
geta þeir dregið úr kvíða.
-
auka þeir þrautseigju og getu til að takast á við áföll og mótlæti.
Markmiðin með styrkleikaþjálfunni eru að styðja við nemendur í að:
-
sjá og efla styrkleika sína
-
æfa samskipti og tilfinningagreind
-
sjá styrkleika annarra
-
vinna með öðrum - samvinna
-
að byggja upp enn jákvæðari skólasamskipti.
Verkfærin sem við notum til að ná settum markmiðum eru 26 styrkleikar sem styrkleika teymið hafa þýtt yfir á íslensku. Teymið þýddi einnig styrkleikaspjöld sem er gott verkfæri fyrir kennara til að útskýra styrkleika hugtökin fyrir nemendum.
Í skólanum vinnum við fjölbreytt verkefni sem koma frá heimasíðu See the Good, frá kennurum, nemendum og styrkleika teyminu. Við reynum að hafa verkefnin sýnileg í skólanum sem og styrkleika hvers mánuðar.
Á síðasta skólaári 2024-2025 unnum við sérstaklega með styrkleikana
-
Samvinna
-
Félagsfærni
-
Góðvild
-
Þakklæti
-
Kærleikur
-
Forvitni
Á þessu skólaári 2025-2026 byrjum við haustönnina á að vinna sérstaklega með þessa styrkleika:
Bjartsýni- ágúst, september.
Hugrekki- október.
Húmor- nóvember, desember.
Hvað er hægt að gera heima:
Foreldrar geta kennt börnum sínum að koma auga á styrkleika sína og annara fjölskyldumeðlima heima fyrir og koma þeim í orð.
Ígrunda og ræða hvað gekk vel í vikunni eða fara yfir daginn og ræða hvaða styrkleikar voru notaðir. Ræða hvaða styrkleika við notum í tómstundum/íþróttum.
Tekið saman af Önnu Steinunni Friðriksdóttur og Rögnu Fanneyju Gunnarsdóttur.