Íslenska

Meginmarkmið með íslenskunámi er að nemendur öðlist jákvætt viðhorf til málsins og nái góðu valdi á því.  Að hafa góð tök á íslensku er undirstaða alls náms.  Læsi er öflugt tæki til að afla sér þekkingar og mikilvægt er að nemendur geti tjáð sig í ræðu og riti í nútímasamfélagi. 

Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð í læsi og er lögð til grundvallar læsiskennslu á yngsta stigi Árskóla. Unnið er með lestur, ritun, tal og hlustun á heildstæðan hátt og lögð áhersla á orðaforða sem er undirstaða góðs lesskilnings. Samþætting þessara þátta er grundvöllur árangurs í lestrarnámi. Viðfangsefni eru sótt í merkingarbæran texta og þá gjarnan í barnabækur. Lykilorð úr textanum eru nýtt til innlagnar á þeim atriðum sem unnið er með hverju sinni. Mikið er lagt upp úr samvinnu nemenda og einstaklingsmiðun í kennslu. 

Lögð er áhersla á læsi allra nemenda með því að hvetja til bókmenntalesturs. Má þar m.a. nefna þátttöku í upplestrarkeppni 7. bekkjar, daglega læsistíma á öllum stigum og leshópa á unglingastigi.