Um skólann

Árskóli er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur sem búa á Sauðárkróki, í Hegranesi, á Reykjaströnd og Skaga. Í Árskóla vinnur sérmenntað starfsfólk  saman að því að mæta ólíkum einstaklingum með krefjandi verkefnum við hæfi hvers og eins. Unnið er í anda hugmyndafræðinnar um skóla án aðgreiningar og lögð er áhersla á að koma til móts við námsþarfir allra nemenda í skólahverfinu.

Starfsemi Árskóla fer fram í húsnæði skólans við Skagfirðingabraut, en haustið 2013 var byggt við skólahúsið og öll starfsemi skólans flutti undir eitt þak. Lögð var niður starfsemi í gamla skólahúsinu við Freyjugötu sem áður hýsti 1. – 3. bekk. Í Árskóla starfa um 420 manns, þar af stunda um það bil 340 nemendur nám. Skólinn er deildaskiptur í yngsta stig, miðstig og unglingastig. Hann er einsetinn og hefst skólastarf kl. 8:10 alla virka daga. Skólahúsið er opnað klukkan 7:30 á morgnana. Boðið er upp á morgunmat og hádegismat í mötuneyti skólans og geta allir nemendur og starfsmenn nýtt sér það. Að kennslu lokinni gefst nemendum á yngsta stigi, 1. – 4. bekk kostur á lengdri viðveru á frístundaheimilinu Árvist kl. 13:10 til 16:30 alla daga.

Helstu þættir í þróun skólastarfsins frá stofnun Árskóla eru þessir:

  • Öflugt foreldrasamstarfMarkmið skólans er að stuðla að og leggja rækt við gott samstarf milli heimila og skóla og auka þátttöku foreldra í skólastarfinu. Gott samstarf við heimilin er forsenda farsæls skólastarfs og að nemendum líði vel í skólanum. 
  • Jákvæður agi.Í skólanum eru gerðar miklar kröfur til nemenda varðandi aga, en ávallt er reynt að vinna með öll agamál á jákvæðan hátt og reynt að tryggja að sambærileg mál séu meðhöndluð á sama hátt. 
  • SjálfsmatSkólinn er frumkvöðull hér á landi í notkun Gæðagreina við innra mat á skólastarfinu. Árlegar kannanir meðal foreldra,  nemenda og starfsmanna gera okkur kleift að leggja mat á hina ýmsu þætti skólastarfsins og bera þá saman milli ára. 
  • ListirLögð er rík áhersla á list- og verkgreinakennslu og leiklist skipar veglegan sess í skólastarfinu. 
  • Danskennsla. Rík hefð er fyrir danskennslu í skólanum, en fyrstu 6 starfsár hans fengu allir bekkir danskennslu eina kennslustund á viku. Í dag er danskennslan í námskeiðsformi nokkrum sinnum á skólaárinu. 
  • Öflugt forvarnarstarf. Mikil áhersla er lögð á að efla forvarnir við skólann og höfum við t.a.m. fengið forvarnarfræðslu Magnúsar Stefánssonar árlega með nemendum, foreldrum og starfsfólki.
  • Olweusarskóli. Í Árskóla hefur verið unnið samkvæmt eineltisáætlun Olweusar frá árinu 2002.