Samfélagsgreinar

Samfélagsfræði stendur fyrir landafræði, lífsleikni, sögu og þjóðfélagsfræði. Markmið kennslu í landafræði er að auka vitund nemenda um umhverfi og menningu frá nálægasta sviði til hinna fjarlægari. Landafræðin þroskar sköpun hugans og eykur víðsýni nemandans. Saga hefur almennt menntunargildi þar sem til hennar er vísað í daglegu lífi og rökræðu um úrlausnarefni samtímans.  Nemendur kynnast ólíkum menningarheimum og sjá tilveruna frá öðru sjónarhorni. Markmið þjóðfélagsfræðinnar er að nemendur fái tækifæri til að líta sér nær og skoða stöðu sína í þjóðfélaginu. Nemendur eru vaktir til umhugsunar um réttindi og skyldur, hvernig samfélagið er samsett og hverjir ráða í samfélaginu. Í þjóðfélagsfræði eru nemendur hvattir til umhugsunar um ýmis lykilhugtök eins og lýðræði, mannréttindi, borgaravitund og sjálfsmynd auk þess að fylgjast með málefnum líðandi stundar.

Í heimi menningarinnar eru stunduð fjölbreytt trúarbrögð. Nemendur fá að kynnast helstu straumum og stefnum í trúarbrögðum heimsins og uppbyggingu þeirra í gegnum aldirnar.  Lögð er áhersla á að rækta með nemendum umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum.