Símenntun starfsfólks

Símenntunarstefnu skólans má sjá í heild sinni í skólanámskrá. Samkvæmt henni er áætlun unnin sameiginlega af stjórnendum og starfsfólki um símenntun starfsfólks á hverju skólaári. Reglulega stendur skólinn fyrir fræðslufundum, námskeiðum og skólaheimsóknum. Starfsmenn eru hvattir til að sýna frumkvæði um að sækja námskeið og ráðstefnur sem þeir telja að nýtist þeim í starfi, bæði innanlands og utan.

Áfram er unnið að þróun kennsluhátta í kjölfar aukinnar tækniþróunar. Unnið er að þróun og aðlögun námsmats í skólanum út frá hæfniviðmiðum og matsviðmiðum í hverjum árgangi. Samhliða því er unnið að aðlögun náms- og kennsluáætlana að nýrri Aðalnámskrá.

Allir nemendur skólans hafa aðgang að iPad í skólanum sem tæki til náms (1:1) og kennarar fá öflugan stuðning og fræðslu við að innleiða tækniþróun og breytta kennsluhætti með aðstoð tækninnar. Verkefnið hefur gefið góða raun síðustu ár. 

Einstaka starfsmenn og starfsmannahópar fara á ráðstefnur, námskeið og í skólaheimsóknir bæði innanlands og utan í þeim tilgangi að halda sér við í starfi og bæta við nýrri þekkingu sem nýtist í starfinu. 

Tveir kennarar í Árskóla eru í námi í tengslum við Byrjendalæsi, sem er kennsluaðferð í læsi í 1. og 2. bekk. 

Gerð var sameiginleg læsisstefna fyrir alla leik- og grunnskóla í Skagafirði. Stefnan hefur verið gefin út í bæklingi og innleidd í skólanum.