Merki skólans

Hugmyndin að merkinu er sótt í umhverfið á Sauðárkróki. Nafirnar liggja eftir endilöngum bænum og binda bæjarmyndina saman, með klaufum inn á milli – eins og skólinn fylgir nemendum í gegnum öll æskuárin og bindur líf þeirra saman, sem mikilvægan þátt í þroska, leik og starfi.

Stærsti og sterkasti þátturinn í skólastarfinu er engu að síður fólkið. Það er enginn einn – allt skólastarfið byggir á þátttöku og samstarfi margra og þess vegna tákna brekkurnar tvær og klaufin milli þeirra einnig fólk sem sést ganga hönd í hönd og saman fram á við.

Sólin er forsenda lífs – eins og segja má að í skólastarfinu sé grundvöllur góðrar framtíðar lagður. Hún táknar ungt fólk og uppbyggingu. Sólin táknar einnig skólann, hún er eins konar leiðarstjarna, sem vakir yfir fólkinu, hátt á lofti.

Litirnir tákna vor, sumar og líf. Grænn er litur vonarinnar, gulur er glaður.

Hönnuður merkisins er Áslaug S. Árnadóttir arkitekt sem býr og starfar í Árósum í Danmörku. Hún er fyrrum nemandi skólans.