Í skólastefnu Sveitarfélagsins Skagafjarðar er lögð áhersla á að mat á skólastarfi, jafnt innra sem ytra mat, tryggi þróun og umbætur í skólum Skagafjarðar. Í anda skólastefnunnar leggur starfsfólk Árskóla ríka áherslu á að meta alla þætti skólastarfsins kerfisbundið. Matsniðurstöður og umbótaáætlun í kjölfar mats og eftirfylgni hennar leiðir svo til áframhaldandi þróunar skólastarfsins. Frá árinu 1999 hefur starfsfólk Árskóla byggt sjálfsmat skólans á skoska sjálfsmatskerfinu How Good Is Our School sem hefur fram til þessa heitið Gæðagreinar í íslenskri þýðingu. Vorið 2016 kom út ný útgáfa af sjálfsmatskerfinu á íslensku og var nafninu þá breytt í „Hversu góður er grunnskólinn okkar.“ Farsælt samstarf hefur verið við starfsfólk skosks skóla, Balwearie High í Kircaldy, undanfarinn áratug við innleiðingu sjálfsmatsaðferðanna í Árskóla. Áætlun um sjálfsmat er gerð til þriggja ára í senn. Sú áætlun getur tekið breytingum á tímabilinu þar sem aðstæður geta kallað á breyttar þarfir. Þetta sjálfsmatskerfi var valið meðal annars vegna þess að kerfið er einfalt í notkun, sveigjanlegt, skilvirkt, gefur góða yfirsýn yfir skólastarfið og leiðir til aukinna gæða í skólastarfi. Auðvelt er að taka inn nýja þætti og bregðast við og skoða einstaka þætti skólastarfsins þegar þörf er á. Á undanförnum misserum hefur starfsfólk Árskóla aðlagað Gæðagreinana að sérstöðu skólans, m.a. með því að búa til nýja Gæðagreina um þætti í starfi skólans. Allt starfsfólk skólans tekur þátt í matinu. Nemendur og foreldrar hafa einnig verið virkjaðir til þátttöku í mati á skólastarfi með aðferðum Gæðagreina og taka því með þeim hætti virkan þátt í mótun skólastarfs eins og skólastefna sveitarfélagsins kveður á um. Matið er unnið í hópum og er aðalatriðið að styrkleikar og þeir þættir sem þarfnast úrbóta í gæðagreininum séu dregnir fram og rökstuddir. Settar eru fram tillögur um aðgerðir sem útfærðar eru nánar í þróunaráætlun sem unnin er í kjölfar mats. Sjálfsmatsvinna með Gæðagreinum er órjúfanlegur þáttur skólastarfs í Árskóla. Með skýrum markmiðum skólanámskrár og kerfisbundnu mati á skólastarfinu skapast góður jarðvegur til áframhaldandi eflingar skólastarfs í Árskóla. Þess má geta að starfsfólk skólans hefur kynnt og aðstoðað við innleiðingu á sjálfsmatsaðferðum skólans, Gæðagreinum, í skólum víða um land.