Mat á skólastarfi

Samkvæmt 35. og 36. grein grunnskólalaga frá 2008 ber öllum grunnskólum að framkvæma kerfisbundið sjálfsmat. Í Aðalnámskrá grunnskóla 2011 kemur fram að mat á skólastarfi sé lögbundið eftirlitsstarf skóla og skólayfirvalda. Tilgangur matsins er að tryggja réttindi nemenda, stuðla að skólaumbótum, veita upplýsingar um skólastarf og tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla. Skólar bera sjálfir ábyrgð á að framkvæma svokallað innra mat, þar sem ætlast er til að allir þættir skólastarfs séu metnir með kerfisbundnum hætti. Í Aðalnámskrá grunnskóla 2011 byggir menntastefnan á sex grunnþáttum menntunar sem áður hefur verið gerð skil í 2. og 4. kafla. Grunnþættirnir eiga að vera leiðarljós í öllu skólastarfi og þegar skólastarf er metið þarf að skoða hvernig grunnþættirnir hafa sett mark sitt á alla þætti skólastarfsins. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, og eftir atvikum sveitarfélög, annast hins vegar svokallað ytra mat á skólastarfi. Ytra matið felst m.a. í úttektum á skólastarfi í heild eða einstökum þáttum þess.