Eineltisáætlun

Í Árskóla er einelti ekki liðið. Leitað er allra leiða til að uppræta einelti. Starfað er eftir forvarnar- og viðbragðsáætlun Árskóla gegn einelti. Í skólanum starfar lykilmannateymi sem hefur það hlutverk að halda utan um fræðslu og forvarnarstarf í skólanum, samkvæmt áætlun gegn einelti. Oddviti teymisins er tengiliður lykilmannahóps við stjórnendur og annað starfsfólk. Fræðslu- og forvarnarfundir eru haldnir reglulega með starfsfólki þar sem eðli og birtingarmyndir eineltis eru ræddar svo hægt sé að bregðast við vandanum með sem bestum hætti. Allt starfsfólk skólans tekur virkan þátt í baráttunni gegn einelti en umsjónarkennarar gegna þar lykilhlutverki. Umsjónarkennarar halda bekkjarfundi reglulega með nemendum þar sem m.a. forvarnarstarf gegn einelti fer fram. Nemendur eru fræddir um orsakir og eðli eineltis; allt í því skyni að koma í veg fyrir vandann. Árlega er baráttudagur gegn einelti haldinn hátíðlegur með skipulagðri vinnu nemenda og starfsmanna.

Hvað er einelti? 

Hvað er einelti? Einelti er síendurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á öðrum einstaklingi. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis. Einstök átök, ágreiningur og stríðni milli jafningja telst ekki til eineltis. Einelti á sér margar birtingarmyndir:

  • Líkamlegt t.d. barsmíðar, spörk eða hrindingar.

  • Munnlegt t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir og stríðni. Stundum er hvíslast á, flissað og hlegið en þolandi veit ekki hvað er sagt.

  • Félagslegt t.d. baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi. Sem dæmi er þolanda ekki boðið í afmæli og/eða hann þarf að þola svipbrigði, augnagotur, þögn og afskiptaleysi. 

  • Efnislegt t.d. þegar eigum þolanda er stolið eða þær eyðilagðar. 

  • Andlegt t.d. þegar þolandi er þvingaður til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd hans og sjálfsvirðingu. Honum er skipað í þjónustuhlutverk og getur verið látinn eyðileggja eigur annarra eða skólans. 

  • Rafrænt t.d. skilaboð á samfélagsmiðlum og myndasendingar. Skilaboðin geta verið send þolanda eða verið um þolanda og send á aðra.

Ítarlegri áætlun gegn einelti er að finna hér.