Árskóli - stefna og sérstaða

Í nýrri Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 eru sex grunnþættir menntunar lagðir til grundvallar. Þeir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpunÍ starfi Árskóla er leitast við að hafa þá að leiðarljósi í starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag. Efnisval og inntak náms, kennslu og leiks mótast af þessum grunnþáttum. 

Í Árskóla er lögð áhersla á að skólinn sé aðlaðandi vinnustaður þar sem nemendum og starfsmönnum líður vel í leik og starfi. Í skólastarfinu er lögð áhersla á að allir starfsmenn vinni náið saman að velferð nemenda. Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og hafa miklar væntingar til nemenda. Í Árskóla er öflugt stoðkerfi og teymisvinna um málefni nemenda. Lögð er áhersla á gagnkvæma virðingu nemenda og starfsmanna og jákvæðan skólabrag. Hvatt er til skapandi hugsunar og frjálsrar tjáningar og í því skyni er reynt að stuðla að blómlegri listkennslu í öllum árgöngum. Skólinn er Olweusarskóli og hefur unnið að eineltismálum undir merkjum Olweusar frá árinu 2002.

Í Árskóla er starfað samkvæmt einkunnarorðunum lifa – leika – læra.

Að lifa vísar til þess að skólinn:

 • búi nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi
 • stuðli að sjálfstæðri hugsun og jákvæðri sjálfsmynd nemenda
 • þjálfi hæfni nemenda til samstarfs við aðra
 • leiðbeini nemendum við að sýna umburðarlyndi og víðsýni

 

Að leika vísar til þess að skólinn:

 • efli starfsgleði nemenda með því að nota fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir
 • hafi fasta viðburðadaga þar sem nemendur fá að njóta sín í leik og starfi
 • leggi áherslu á leiklist og sviðsframkomu í öllum árgöngum
 • leggi áherslu á að læra í gegnum leik

 

Að læra vísar til þess að skólinn:

 • veiti nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni
 • kenni nemendum vinnubrögð sem stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska
 • hvetji nemendur til ábyrgðar á eigin námi
 • veiti markvissa endurgjöf til nemenda til að stuðla að framförum í námi
 • vinni að einstaklingsmiðun náms þar sem þörfum hvers einstaklings er mætt
 • skapi hvetjandi námsumhverfi þar sem notaðar eru fjölbreyttar náms- og kennsluaðferðir og krefjandi viðfangsefni
 • hvetji nemendur til ígrundunar og virkrar þátttöku í námi