Kennsluhættir í samkomubanni

Yngsta stig

Skóladagurinn er óvenjulegur að því leyti að börnin mæta og/eða fara heim á öðrum tíma en venjulega þar sem bekkir mega ekki blandast í anddyri. Nemendur fá 25 mínútna útiveru á dag og þá koma íþróttakennarar og sækja hvern hóp fyrir sig (20 nem eða færri) og fara með út. Nemendur koma með nesti að heiman og borða það í kennslustofunum.

Kennarar í 1. bekk tóku þá ákvörðun að leggja ekki inn ný efnisatriði á meðan ástandið varir þar sem margir foreldrar hafa börn sín heima og þeir sem vilja fá „námspakka” heim.  Námsefnið er því þjálfun í því sem þegar hefur verið kennt og reynt er að hafa námsefnið eins fjölbreytt og kostur er en kennarar forðast þó að láta nemendur vinna verkefni þar sem snerting er mikil. Mikil notkun er á iPad og sögustundir eru fleiri.

Svipaðar áherslur eru í 2. bekk og í 1. bekk. Nýtt námsefni var þó lagt inn í stærðfræði og voru allir foreldrar upplýstir um það og öll börn sem eru heima hafa stærðfræðibækurnar hjá sér. Þar sem fáir eru mættir er auðveldara um vik en áður að hlusta á upplestur nemenda og áhersla á lesturinn er meiri en ella. Eins lesa kennarar meira fyrir nemendur. 

3. bekkur er fámennur og þar sem margir þeirra eru heima er allur árgangurinn saman og því þarf ekki að skipta þeim í tvo hópa. Nemendur vinna „skólabingó” þ.e. spjöld með verkefnum vikunnar og mismunandi námsgreinum og þeir mega vinna þau í þeirri röð sem þeim hentar. Eftir útiveru er ½ tíma lestrarstund þar sem nemendur lesa og/eða hlusta á upplestur. Lögð er áhersla á hreyfingu í skólastofunni og draga nemendur til skiptis „hreyfispjöld” sem farið er eftir þegar hreyfiæfing er tekin. 3. bekkur fór að heilbrigðisstofnuninni 23. mars, og söng fyrir íbúa dvalarheimilisins.

4. bekkur vinnur skólabingó eins og 3. bekkurinn en verkefnin eru þó örlítið frábrugðin. Lögð er áhersla á að brjóta kennslustundirnar upp með leik eða dansi og föndur er hluti af námsefninu. Lestrarstund kennara með nemendum er á hverjum degi meðan nemendur snæða nestið sitt.  

Miðstig

Nemendur í 5. og  6. bekk mæta daglega í skólann að morgni og eru í kennslu til hádegis. Árgangar eru tvískiptir og hóparnir blandast ekki. Komu- og heimferðartímar eru mismunandi og miða að því að nemendur aðskildra hópa hittist ekki á göngum eða í forstofu. Hver hópur fer út í hreyfingu með íþróttakennara í 30 mínútur á dag. Nemendur koma með nesti sem þeir snæða í stofunum. Kennslan miðast við að reyna að halda náminu sem mest í eðlilegu horfi miðað við aðstæður, en styttri skóladagur og engin kennsla í list- og verkgreinum. Dagurinn er gjarnan brotinn upp með fjölbreyttum verkefnum og nemendur eru undirbúnir fyrir rafræna kennslu. 

7. bekkur er í fjarnámi að hluta til, en mætir í skólann í tvær kennslustundir á dag í þremur aðskildum hópum. Viðverutími í skóla er nýttur í innlögn á verkefnum, verkefnavinnu á vef og í bókum og leiðsögn í tengslum við rafræn verkefni. Nemendur vinna heimaverkefni þess á milli og skila til kennara í gegnum rafrænt námsumhverfi. Verkefnum er deilt til nemenda í gegnum Google Classroom, en einnig er notast við Seesaw. Nemendur hafa auk þess fengið kynningu á fjarfundaforritinu Meet.  

Unglingastig

Nemendur í 8.-10. bekk mæta daglega í skólann í klukkustund í senn. Árgangarnir eru tví- og þrískiptir og hóparnir blandast ekki. 

Í 8. bekk er lögð áhersla á að verkefni séu dreifð í skólanum svo álagið sé ekki of mikið á fjarkennslu. Fögum er dreift á daga þótt daglega sé farið í stærðfræði og lestur. Allir nemendur hafa aðgang að „Dagbókin mín“ skjali sem er hlaðið ýmiskonar verkefnum sem koma inn á mörg fög, t.a.m. íþróttir, lífsleikni, lesskilning, tungumál o.fl. Öpp og tæki sem notast er við í 8. bekk eru Google Classroom, Slack, Nearpod, Thatquiz, Quizlet, Seesaw, gagnvirkar æfingar á vef Menntamálastofnunar, gagnvirkar æfingar á Skólavefnum, Google Meet bæði sem fjarfundaforrit og kennslumyndbönd frá kennara og Facetime. Kennarar taka upp útskýringar/innlagnir með Explain Everything og Screen recording á iPad.

Í 9. bekk hefur áherslan verið á heimaverkefni sem nemendur geta nálgast á sínum forsendum. Verkefnin, sem eru úr ýmsum námsgreinum, koma inn á hverjum degi í Google Classroom. Nemendur hafa val um það hvenær dags þeir vinna þau, en þeim er skilað í lok hvers dags. Skilin hafa verið margvísleg; ritun, munnleg skil, myndbandsupptökur og fleira. Viðverutíminn í skólanum hefur verið nýttur í að taka stöðuna á nemendum, kenna á fjarkennsluforrit og önnur forrit sem nýtast á komandi tímum, vinna í námsefni bekkjarins og kynna ný verkefni. Fjarkennsla í eiginlegri merkingu er einnig á döfinni. Nemendur vinna heimalestur í leshópum í gegnum samskiptaforritið Slack.

Hjá 10. bekkingum er farið yfir þau verkefni sem liggja fyrir og þau unnin að hluta til í skólanum. Að öðru leyti liggja verkefnin að mestu fyrir í Google Classroom. Nemendur fá einnig kóða á stærðfræðiverkefni og Nearpod verkefni í ýmsum fögum í tölvupósti eða inn á samskiptaforritið Slack. Kennarar eru í miklu sambandi við nemendur í gegnum Slack og aðstoða þar með fjarnám eins og mögulegt er. Ætlunin er að halda reglulega fjarfundi með þeim nemendum sem ekki mæta í skóla, af einhverjum ástæðum, með forritinu Hangout Meet.