Hefðir í skólastarfinu

Viðburðardagar eru nokkrir á skólaárinu. Þá er skólastarfið brotið upp og tileinkað ákveðnu þema. Dæmi um slíka daga eru:

Dansmaraþon. Stór liður í fjáröflun 10. bekkinga er dansmaraþon. Þá dvelja nemendur í einn sólarhring í skólanum og dansa. Foreldrar taka virkan þátt í maraþoninu, t.d. með því að standa vaktir, starfrækja kaffihús og aðstoða við að afgreiða mat sem bæjarbúum er gefinn kostur á að kaupa til styrktar nemendum 10. bekkjar.

Lúsíuhátíð. Nemendur í 6. bekk æfa söngva, bæði á íslensku og á öðrum norrænum tungumálum og klæðast viðeigandi búningum. Farið er um bæinn þar sem fyrirtæki og stofnanir eru heimsótt og sungið fyrir gesti og gangandi undir harmonikuspili.

Þema. Reglulega er hefðbundið skólastarf brotið upp og nemendur vinna þematengd verkefni í aldursblönduðum hópum. 

Friðarganga. Við upphaf aðventu ganga allir nemendur og starfsmenn skólans fylktu liði upp Kirkjustíginn og mynda friðarkeðju með því að láta ljós og friðarkveðju ganga á milli. Að lokum er tendrað ljós á krossinum á Nöfunum. Göngunni lýkur á lóð Árskóla þar sem  þátttakendur gæða sér á heitu kakói og piparkökum.

Stofujól. Síðasta kennsludag fyrir jól heldur hver bekkur sín stofujól, sem er hátíðleg samverustund í skólastofunni þar sem setið er við kertaljós, lesin jólasaga og jólaguðspjallið er gjarnan lesið. Bögglaskipti fara fram o.fl. gert sér til gamans. Auk þess koma nemendur saman í íþróttasal þar sem þeir dansa kringum jólatré og syngja jólasöngva.

Þorrablót. Allir nemendur og starfsmenn eiga samverustund í íþróttasal. Minni karla og kvenna eru flutt af nemendum í 8. bekk og sunginn fjöldasöngur áður en haldið er til heimastofu þar sem snæddur er þorramatur sem nemendur koma með að heiman.

Íþróttadagur. Allir nemendur skólans eru þátttakendur og hefur hver bekkjardeild sitt auðkenni. Nemendur og starfsmenn safnast saman í Íþróttahúsinu og etja kappi. 

Sumarsælukaffi. Á hverju ári bjóða yngstu nemendur skólans eldri borgurum í Sumarsælukaffi. Nemendur sýna skemmtiatriði og síðan er gestum boðið að fylgjast með vinnu nemenda. 

Skólablöð. Gefin eru út tvö skólablöð til fjáröflunar skólaferðalaga: Skólatrall í 7. bekk og Glóðafeykir í 10. bekk. Umsjón með útgáfunni hafa umsjónarkennarar í viðkomandi bekkjum, ásamt ritnefndum nemenda.

Kennslulok hjá 10. bekk. Að morgni síðasta skóladags 10. bekkinga mæta þeir, ásamt foreldrum sínum, kl. 07:00 í starfsmannaaðstöðu/matsal. Hver fjölskylda tekur með sér eitthvað á morgunverðarhlaðborð og borða umsjónarkennarar 10. bekkinga og skólastjórnendur með nemendum og foreldrum. Klukkan 8 þegar aðrir starfsmenn mæta til vinnu taka 10. bekkingar á móti þeim með blómum og söng. Að því loknu er starfsfólki boðið í morgunmat. Nemendur 10. bekkjar kveðja þá yngri samnemendur sína með því að sjá um „kennslu“ í eina kennslustund og bjóða yngri nemendum, sem þess óska, andlitsmálun.

Starfskynning. 10. bekkingar fara í 2 - 3 daga starfskynningu í fyrirtæki að vori og leggst þá hefðbundin kennsla niður hjá þeim. Starfskynning er lokaverkefni 10. bekkinga í náms- og starfsfræðslu.

Gleðiganga. Síðasta skóladag klæðast nemendur og starfsfólk skrautlegum búningum og ganga fylktu liði um bæinn undir fjörugri tónlist. Fyrsti viðkomustaður er sunnan við sjúkrahúsið þar sem skólasöngurinn er sunginn fyrir starfsfólk og íbúa og nemendur leika sér í Vinaliðaleikjum. Göngunni lýkur á lóð Árskóla þar sem grillaðar pylsur eru í boði.