Skólaspegill - staðfest sjálfsmat

Skólaspegillinn, staðfest sjálfsmat, er ný leið í mati á skólastarfi á sveitarfélagsvísu. Aðferðin er samstarfs- og umbótamiðuð og er byggð á skoskri aðferð en aðlöguð að íslenskum aðstæðum. Matsaðferðin byggir á samstarfi Fræðsluþjónustu Skagafjarðar og skólastjórnenda grunnskólanna í Skagafirði. Á skólaárinu voru tveir þættir skólastarfs í Árskóla metnir með aðferðinni þ.e. innleiðing á lestrarstefnu Skagafjarðar og teymiskennsla. Þetta var í fyrsta skipti sem þessari matsaðferð er beitt hér á landi en matsaðferðin er skosk að uppruna, líkt og sjálfsmatsaðferðin Hversu góður er grunnskólinn okkar?, sem notuð er við innra mat á skólastarfi í Árskóla. Hægt er að skoða niðurstöður matsúttektarinnar í samantektarskýrslu svo og umbótaáætlanir sem henni fylgja undir hlekknum Aðrar skýrslur.

Markmið/tilgangur Skólaspegilsins er eftirfarandi:

  • Að skapa sameiginlegan skilning á starfi innan skólasamfélagsins

  • Að stuðla að framförum með því að styðja skóla við að auka gæði skólastarfs

  • Að læra af og deila góðu verklagi á milli skóla

  • Að meta skólastarfið og upplýsa um getu skólans til umbóta

  • Að tryggja gæði menntunar

  • Að styrkja skólastjórnendur í starfi og skapa þeim vettvang til samstarfs og starfsþróunar

  • Að uppfylla lagaskyldur um ytra mat á sveitarfélagsstigi