Leiðbeiningar við sjálfsmat

Matseyðublöðin eru sett þannig upp að viðmið um einkunnina 5 í hverjum gæðagreini eru sundurliðuð, setningu fyrir setningu. Starfsmenn skólans vinna að matinu í matshópum, skipting fer eftir aðstæðum hvers skóla. Hver matshópur ígrundar atriðin sem koma fram á matsblaðinu og getur gefið einkunn fyrir hvern lið ef hann kýs svo. Það er hins vegar ekki markmið í sjálfu sér að hverjum lið sé gefin einkunn heldur að hópurinn komi sér saman um heildareinkunn fyrir öll atriðin sem koma fram í gæðagreininum sem liggur fyrir til mats.

Í matsvinnunni er aðalatriðið að styrkleikar og þeir þættir sem þarfnast úrbóta í gæðagreininum séu dregnir fram og rökstuddir. Við tölum gjarnan um "sönnunargögn" í þessu tilliti. Í viðauka 5 í gæðagreinaefninu eru dæmi um hvernig leita má sönnunargagna eða vísbendinga til að styðjast við í matinu. Matshópurinn setur einnig fram sameiginlega sýn á hverjir mikilvægustu þættirnir í gæðagreininum eru.

Á matsblaðið eru settar fram í stuttu máli tillögur um aðgerðir sem útfærðar eru nánar í þróunaráætlun sem unnin er í kjölfar mats. Í þróunaráætlun eru settar fram markmiðssettar umbótatillögur, þær tímasettar og tillögur gerðar um hverjir eigi að hafa umsjón með að þeim sé framfylgt. Viðmið eru einnig sett fram um hvernig meta eigi árangur umbótanna.