Vinadagar grunnskólanna í Skagafirði

Dagana 27. - 28. apríl voru vinadagar grunnskólanna í Skagafirði. Þema vinadaganna var geðrækt, hreyfing og listir. Yngsta stig (1. - 4. bekkur) í öllum skólunum kom saman í Árskóla, miðstigið (5. - 7. bekkur) kom saman í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi og unglingastigið (8. - 10. bekkur) í Varmahlíðarskóla. 

Nemendur yngsta stigs horfðu á sirkus í íþróttahúsinu á miðvikudeginum, en hver árgangur vann að öðru leyti verkefni með jafnöldrum sínum úr vinaskólunum. Verkefnin voru af ýmsum toga; unnið í iPad, föndrað, spilað og farið í fjölbreytta leiki, innan- og utanhúss. 

Á miðstigi var mismunandi dagskrá eftir árgöngum, en verkefnin voru margvísleg, utandyra og innanhúss. Má þar m.a. nefna hópefli, leiki, sundferð, fjöruferð og spil. 

Nemendur á unglingastigi í grunnskólunum þremur unnu í listasmiðjum í Varmahlíðarskóla undir stjórn listnámsnema úr Listaháskóla Íslands. Nemendum höfðu nokkurt val um hvaða smiðju þeir tilheyrðu. Unnið var í listasmiðjum báða dagana, en einnig var farið í leiki og útivist. Dagskránni lauk með listasýningu seinni daginn þar sem foreldrar voru sérstaklega boðnir velkomnir.

Þessir vinadagar heppnuðust einstaklega vel og ekki var annað að sjá en að nemendur á öllum stigum hafi skemmt sér vel og notið samverunnar.

Á fésbókarsíðu skólans má sjá fjölmargar myndir frá vinadögunum.