Nú er frost á Fróni ...
Þorrablót nemenda var haldið á Bóndadaginn. Byrjað var með samkomu í íþróttasalnum þar sem sunginn var Þorraþræll og fleiri ísköld Þorralög. Hlómsveit hússins stýrði söng, en hana skipuðu þau Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson (söngur og gítar), Atli Víðir Arason (bassi), Sigríður Margrét Ingimarsdóttir (söngur), Joaquin de la Cuesta Gonzáles (saxófónn) og Jóna Kristófersdóttir 3. bekk sem lék á saxófón.
Minni karla og kvenna var samið af nemendum í 8. bekk og flutt af Kristjönu Rögn Friðriksdóttur og Hólmari Thor Jónssyni. Í ræðunum voru létt skot á stráka og stelpur. Strákarnir fengu að heyra að þeir muni fáa afmælisdaga en fari létt með að muna bikarmeistara undanfarin 10 ár. Strákarnir skutu á móti og nefndu verslunarsiði og notkun vatnsbrúsa. Ræðurnar enduðu hins vegar á lofi á báða bóga.
Nemendur héldu í stofur sínar að loknum söng og ræðum í íþróttahúsi. Þar gæddu þau sér á þjóðlegum mat sem nemendur komu með að heiman. Gripið var í spil, tafl og aðra leiki. Vel heppnaður dagur en þó fátt sem minnti á Þorra utandyra.