Stóra upplestrarkeppnin í Skagafirði

Vinningshafarnir frá vinstri: Helgi Sigurjón, Lára og Iðunn Kolka.
Vinningshafarnir frá vinstri: Helgi Sigurjón, Lára og Iðunn Kolka.

Stóra upplestrarkeppni 7. bekkinga í Skagafirði fór fram við hátíðlega athöfn í sal FNV þriðjudaginn 26. apríl. Þátttakendur í keppninni voru ellefu nemendur úr grunnskólunum í Skagafirði og stóðu þau sig með mikilli prýði. Lesinn var texti úr bókinni Hingað og ekki lengra eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur, ljóð eftir Sigurð Pálsson og að lokum ljóð að eigin vali. Allir þátttakendur fengu afhent blóm og bók að gjöf. Nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar fluttu tónlistaratriði.

Sérstök dómnefnd valdi þrjá nemendur sem þóttu skara fram úr í upplestri. Niðurstaða dómnefndar var sú að fyrsta sætið hlaut Iðunn Kolka Gísladóttir Varmahlíðarskóla, 2. sætið hlaut Helgi Sigurjón Gíslason Árskóla og 3. sætið Lára Sigurðardóttir Árskóla. Við óskum vinningshöfunum innilega til hamingju með árangurinn.