Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk í Skagafirði

Verðlaunahafarnir.
Verðlaunahafarnir.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk í Skagafirði fór fram við hátíðlega athöfn í sal FNV miðvikudaginn 17. mars. Þar kepptu 13 fulltrúar úr grunnskólunum í Skagafirði í upplestri, en þeir voru valdir eftir forkeppni í skólunum.

7. bekkingar hafa æft upplestur af krafti í vetur undir stjórn umsjónarkennara sinna og er lokakeppnin nokkurs konar uppskeruhátíð. Sérstök fjögurra manna dómnefnd valdi bestu flytjendurna. Kynnar í keppninni voru þrír nemendur úr 8. bekk í skólunum í Skagafirði, sem voru þátttakendur í upplestrarkeppninni í fyrra.

Lesinn var texti úr bókinni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk og ljóð að eigin vali.  

Nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar fluttu tónlistaratriði í upphafi athafnar og á meðan dómnefndin var að störfum. Varamenn fluttu einnig ljóð að eigin vali. 

Eftirtaldir nemendur hlutu verðlaun fyrir efstu sætin:

Í fyrsta sæti var Lilja Dögun Lúðvíksdóttir í Árskóla, í 2. sæti var Ingunn Marín B. Ingvarsdóttir í Grunnskólanum austan Vatna og í 3. sæti var Bríet Bergdís Stefánsdóttir í Varmahlíðarskóla.

Við óskum þeim til hamingju með árangurinn.