Skólastarf í Árskóla næstu vikurnar

Hér í Árskóla hefur verið unnið ötullega að því að skipuleggja skólastarfið næstu vikur miðað við skilyrt skólastarf og hópaskiptingar sem miðast við að hver hópur sé ekki með fleiri en 20 nemendur. Skólaakstur innanbæjar fellur niður af þessum ástæðum.

Kennarar senda foreldrum bréf með upplýsingum um þann hóp sem þeirra barn tilheyrir næstu vikurnar. Búið er að skipta hópunum á mismunandi tíma í innganga hússins til að koma í veg fyrir samskipti þeirra á milli. Mikilvægt er að tímasetningar séu virtar til þess að lágmarka megi samgang nemenda.

Ekki er hægt að bjóða upp á morgunmat eða hádegismat í skólanum og þurfa nemendur í 1. - 6. bekk því að koma með hollt nesti að heiman, sem þeir snæða í stofunum. Nemendur í 7. - 10. bekk verða að mestum hluta í fjarkennslu og þurfa því ekki að hafa með sér nesti.

Árvist verður starfandi fyrir nemendur sem þar eru skráðir. Börnunum verður hópaskipt í sömu hópa og í skólanum og verða áfram í sömu stofum.

Þessar upplýsingar eru vissulega ekki tæmandi og margar spurningar munu eflaust vakna. Við biðjum ykkur að kynna ykkur þessar upplýsingar vel og einnig upplýsingar frá kennurum. Mikilvægt er að fylgjast með tölvupósti og heimasíðu skólans þar sem allar helstu upplýsingar verða settar inn eftir þörfum. Mögulega verða einhverjar breytingar á skipulagi næstu daga. Við minnum okkur öll á að við gegnum mikilvægu hlutverki í almannavörnum og erum meðvituð í samskiptum og  sóttvörnum. Aðgengi að skólanum verður takmarkað og biðjum við foreldra að koma ekki inn í skólahúsið þegar þeir fylgja börnum sínum í skólann eða sækja þau. 

Mikilvægt er að tilkynna veikindi til skólans eða ef barn eða fjölskylda fer í sóttkví. Ákveði foreldrar að halda börnum sínum heima eða að nýta ekki Árvist biðjum við um að þær upplýsingar séu sendar til ritara skólans eða umsjónarkennara.

Við stjórnendur og starfsfólk Árskóla erum þakklát fyrir þann stuðning og velvilja sem við höfum fundið fyrir í þessum aðstæðum, en það er mikilvægt að við tökum höndum saman til þess að tryggja að börnunum líði vel og að þau finni fyrir öryggi.

Stjórnendur Árskóla