Skólastarf í Árskóla 3. - 17. nóvember

Hér í Árskóla hefur verið unnið ötullega að því að skipuleggja skólastarfið næstu vikur miðað við skilyrt skólastarf og hópaskiptingar í samræmi við reglugerð um takmarkanir á skólastarfi.

Meðal þess sem þar kemur fram er eftirfarandi: Skipta á skólum í sérstök sóttvarnarhólf. Mest mega 10 fullorðnir vera saman í hverju hólfi. Þar skal halda tveggja metra bili og nota grímur ef það er ekki hægt. 

Um nemendur gilda ólíkar reglur eftir aldri. Börn í 5. - 10. bekk mega vera flest 25 saman í hólfi og þurfa að viðhalda tveggja metra fjarlægð sín á milli. Þar sem það er ekki hægt er grímuskylda. Ljóst er að kennslustofur í skólanum eru það litlar að ekki verður hjá því komist að nemendur á mið- og unglingastigi þurfi að nota grímur bæði í kennslustofum og á göngum.

Börn í 1. - 4. bekk mega vera 50 saman í hólfi og eru undanþegin tveggja metra fjarlægðarreglum og grímuskyldu. 

Vegna þessara reglna er hvorki hægt að bjóða upp á morgunmat né hádegismat í skólanum fyrir nemendur í 5. - 10. bekk. Nemendur miðstigs þurfa því að koma með hollt nesti að heiman, sem þeir snæða í kennslustofunum. Nemendur í 8. - 10. bekk verða að hluta til í fjarkennslu og þurfa því ekki að hafa með sér nesti.

Árvist verður starfandi fyrir nemendur sem þar eru skráðir. Þeim verður hópaskipt í sömu hópa og í skólanum, en verða í húsnæði Árvistar.

Þessar upplýsingar eru vissulega ekki tæmandi og margar spurningar munu eflaust vakna. Við biðjum ykkur að kynna ykkur þessar upplýsingar vel. Mikilvægt er að fylgjast með tölvupósti og heimasíðu skólans þar sem allar helstu upplýsingar verða settar inn eftir þörfum. Mögulega verða einhverjar breytingar á skipulagi næstu daga. Við minnum okkur öll á að við gegnum mikilvægu hlutverki í almannavörnum og erum meðvituð í samskiptum og  sóttvörnum. Aðgengi að skólanum verður takmarkað og biðjum við foreldra að koma ekki inn í skólahúsið þegar þeir fylgja börnum sínum í skólann eða sækja þau. 

Mikilvægt er að börnum sé haldið heima ef þau eru kvefuð eða með einhver veikindaeinkenni. Veikindi skal tilkynna til skólans að morgni og einnig ef barn eða fjölskylda fer í sóttkví eða einangrun. 

Við stjórnendur og starfsfólk Árskóla erum þakklát fyrir þann stuðning og velvilja sem við höfum fundið fyrir í þessum aðstæðum, en það er mikilvægt að við tökum höndum saman til þess að tryggja að börnunum líði vel og að þau finni fyrir öryggi.

Nánari upplýsingar varðandi skipulag á hverju stigi voru sendar heim í tölvupósti í dag. Vinsamlegast kynnið ykkur þær.

Stjórnendur og starfsfólk Árskóla