Skólaslit Árskóla

Árskóla var slitið 1. júní, í 25. skipti.
Skólaslitin voru þrískipt, 1. - 4. bekkur, 5. - 8. bekkur, 9. og 10. bekkur.
Hver skólaslit tóku mið af aldri nemenda og voru hver með sínu sniði. Á skólaslitum yngsta stigs kvaddi 4. bekkur með skólasöng Árskóla.
Á skólaslitum 5. - 8. bekkjar fengu 5. bekkingar bókina „Skín við sólu,“ sem Kaupfélag Skagfirðinga gaf öllum 10 ára börnum í Skagafirði. Hver nemandi fékk áritað eintak sem fulltrúi Kaupfélagsins, Herdís Sæmundardóttir afhenti. 5. bekkingar sungu síðan tvö fyrstu erindin af laginu „Skín við sólu Skagafjörður“.
Jóhönnu Maríu Grétarsdóttur Noack í 6. bekk var afhent viðurkenning fyrir 1. sæti í Nýsköpunarkeppni Grunnskólanna.
Á báðum þessum athöfnum var kveðjuatriði frá 10. bekkingum. Það voru þær Emilía B. Hjartardóttir, Hulda Þórey Halldórsdóttir, Sigríður H. Stefánsdóttir og Sunneva D. Halldórsdóttir sem fluttu lagið „Skólarapp.“
Að lokum voru 9. og 10. bekkir kvaddir með hátíðlegri athöfn. Óskar skólastjóri var m.a. með kveðjur frá afmælisárgöngum sem einnig gáfu skólanum peningagjafir. Hallfríður aðstoðarskólastjóri fór yfir viðburðardaga vetrarins í annál skólaársins. Formenn nemendaráðs, Hulda Þórey Halldórsdóttir og Markús Máni Gröndal, fluttu kveðjur frá 10. bekk og afhentu Erni Ragnarssyni ávísun kr. 413.013 sem var afrakstur söfnunar á afmælishátíð Árskóla. Féð rennur til Utanfararsjóðs sjúkra Skagfirðinga og er Örn formaður þess sjóðs.
Viðurkenning var veitt fyrir alhliða námsárangur, það var Emilía B. Hjartardóttir sem hlaut hana. Formennirnir Hulda Þórey og Markús Máni fengu viðurkenningar fyrir félagsstörf. Allir útskriftarnemendur fengu bókina „Verum ástfangin af lífinu,“ eftir Þorgrím Þráinsson og rós í kveðjugjöf frá skólanum. Stúlkurnar fjórar fluttu „Skólarapp", Markús Máni flutti lag og þeir Markús Máni og Sæþór Pétur Hjaltason voru með söngatriði. Að lokinni athöfn buðu forráðamenn 9. bekkinga og skólinn til veislu í matsal skólans þar sem allir áttu góða stund.