Skemmtileg heilsueflandi vika

Siðastliðin vika var heilsueflandi vika í Árskóla. Logi danskennari var á staðnum og var mikið dansað í öllum árgangum, þá sérstaklega í 10.bekk sem undirbjó sig fyrir dansmaraþon sem er 11. október næstkomandi.

Ýmislegt var í gangi á öllum stigum t.d. fékk 9.bekkur fyrirlestur um heilbrigðan lífsstíl frá Ísaki Óla Traustasyni íþróttakennara og fyrirlestur á myndbandi um svefn frá  Dr. Erlu Björnsdóttur og hvaða máli hann skiptir.
Í 6.bekk horfðu nemendur á myndbönd um tilfinningar og kvíða, virkni þjálfun og hugræna atferlismeðferð. Einnig var lesið og rætt um kafla í Náttúrulega 2 þar sem fjallað er um næringu, hreyfingu sem og skaðleg og ávanabindandi efni. Farið var í Míluna í fallegu haustveðri og litadýrðinni sem haustinu fylgir.
5. bekkur fékk fræðslu um Heilsueflandi grunnskóla, þar sem m.a. var farið yfir mikilvægi reglulegrar hreyfingar, hollrar fæðu, tengslamyndunar við fjölskyldu og vini, nægs svefns og góðrar tannheilsu, svo og jákvæð áhrif þess að gera góðverk. Einnig rýndu nemendur í hugtökin vellíðan, góðvild og jákvætt viðhorf og fóru í hreyfispil.
Í 2. bekk var alla daga byrjað á stuttri hugleiðslu frá www.heillastjarna.is. Þau fengu uppskriftir af hollum rétti/köku frá öllum heimilum og sendu út uppskriftarbók. Einnig var verið að vinna með sjálfsmyndina.

Þetta eru nokkur dæmi um allt það sem var í gangi í vikunni en það var mikið líf og fjör í öllum bekkjum.