Ólympíuhlaup ÍSÍ í Árskóla

Miðvikudaginn 15. október tóku nemendur Árskóla þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Yngsta stigið hljóp 2,5 km, unglingastigið 4,5 km og miðstigið valdi á milli vegalengdanna, flest fóru 4,5 km. Hlaupið tókst vel í góðu veðri og tóku allir bekkir þátt. Hlaupið var upp með Sauðá að vatnshúsi, eftir Skógarhlíðinni og endað neðst í Grænuklauf, þar sem tekið var á móti hlaupurum með tónlist og eplasafa. Áherslan var á þátttöku fremur en keppni. Það tók þá fljótustu aðeins tæpar 20 mínútur að hlaupa lengri leiðina og spretthörð á yngsta stigi kláruðu styttri leiðina á rúmum 12 mínútum. Heilsueflandi teymi hafði yfirumsjón með hlaupinu en starfsfólk skólans hljóp með eða sá um brautargæslu. Gaman var að sjá foreldra, afa og ömmur sem mættu og hlupu með. Stefnt er á að hlaupa aftur á næsta skólaári.