Hestanámskeið á Hólum

Undanfarin ár hefur Árskóli verið í samstarfi við Hólaskóla varðandi reiðkennslu nemenda á unglingastigi og hefur nemendum okkar staðið til boða að taka reiðnámskeið sem valgrein. Kennslan er bæði bókleg og verkleg í þriggja daga lotu og er hluti af reiðkennaranámi nemenda við hestabraut Hólaskóla. Dagana 22.-24. febrúar sl. tóku nokkrir nemendur úr 8. og 9. bekk þátt í reiðnámskeiðinu. Auk þeirra taka jafnaldrar þeirra úr Grunnskólanum austan Vatna og Varmahlíð þátt í námskeiðinu. 

Að þessu sinni var þátttaka nemenda úr Árskóla minni en áður og skrifast það á veikindi, sem hafa herjað á nemendur undanfarið. Þeir nemendur sem gátu nýtt sér námskeiðið voru ánægðir með dagskrána og náðu að tileinka sér ýmislegt gagnlegt varðandi umhirðu og umgengni við íslenska hestinn. Móttökurnar að Hólum eru ætíð til fyrirmyndar og kennaranemarnir, sem tóku á móti grunnskólanemendunum, voru í alla staði vel undirbúnir og áhugasamir um að upplifun krakkanna yrði sem best og skemmtilegust.