Grænir frumkvöðlar framtíðarinnar

Nemendur í þremur skólum á landsbyggðinni tóku í vetur þátt í nýsköpunarkeppni, meðal annars við þróun nýrra umbúða fyrir sjávarfang. Það er hluti verkefnisins Grænir frumkvöðlar framtíðar og því er ætlað að vekja áhuga á loftslags- og umhverfismálum.

Krakkarnir eru allir í 9. bekk og hafa í vetur unnið með námsefni þróað af Matís, með styrk úr Loftslagssjóði um umhverfis- og loftslagsmál. Þá þekkingu nýta þeir meðal annars til nýsköpunar. Í Árskóla fengu nemendur kynningu frá fyrirtækjum í sjávarútvegi í sínu bæjarfélagi, Dögun og Fisk Seafood, til að heyra hvaða áskoranir væru þar í umhverfismálum. Auk þess var Guðmundur Sveinsson, reyndur sjómaður af Króknum, með áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur fyrir krakkana.

Í verkefninu eru fjórar vinnustofur þar sem viðfangsefnin eru: 1. Hafið, 2. Lífríkið 3. Sjálfbærni, samfélag og umhverfi 4. Nýsköpun. Í hverri vinnustofu eru fjölmörg verkefni, tilraunir og leikir.

Hápunktur verkefnisins var svokallað MAKEathon, eða vinnusmiðja, sem stóð yfir í tvo daga. Krakkarnir fengu eftirfarandi áskorun: “Hvernig getum við dregið úr notkun plasts við pökkun á fiski og rækjum?” Þeir unnu í hópum að lausn verkefnisins og nutu m.a. góðrar aðstoðar hjá Karitas í FabLab, sem er samstarfsaðili verkefnisins. Einnig voru hér Justine Vanhalst og Katrín Hulda Gunnarsdóttir frá Matís og stýrðu vinnustofunni.

Í Árskóla var keppni á milli nemendahópa um bestu lausnina og haldin var ærleg uppskeruhátíð.