Friðarganga Árskóla

Mynd: Hjalti Árnason.
Mynd: Hjalti Árnason.

Föstudaginn 27. nóvember er hin árlega friðarganga þar sem kveikt verður á krossinum á Nöfunum. Gangan verður með óvenjulegu sniði að þessu sinni vegna sóttvarna. Farið verður með alla árganga frá skóla og út í bæ, á fyrirfram ákveðna staði, þar sem hægt verður að fylgjast með þegar ljósið verður tendrað á krossinum á Nöfunum. Ljós verður ekki látið ganga milli manna eins og venja er, en fulltrúar 10. bekkinga sjá um að flytja ljósið frá kirkju að krossinum og kveikja á honum. Lagt verður af stað u.þ.b. kl. 8:30 frá Árskóla, einn hópur í einu með góðu bili milli hópa. Nemendur fá kakó, piparkökur og kleinur í bekkjarstofunum eftir gönguna.

Ljós verða einnig tendruð á jólatrénu á torginu við þetta tækifæri og 5. bekkingar dansa í kringum jólatréð.

Þá má geta þess að á morgun mun Kiwanisklúbburinn Drangey afhenda öllum nemendum í 1. - 6. bekk endurskinsvesti til eignar. 

Ekki er gert ráð fyrir foreldrum eða öðrum bæjarbúum að þessu sinni, en streymt verður frá viðburðinum á: https://www.facebook.com/heimasida.

Við minnum á að allir nemendur komi vel klæddir til útiveru. Ef við getum ekki farið út með nemendur vegna veðurs, munu þeir fylgjast með streyminu í sínum stofum og fá síðan kakó, kleinur og piparkökur.

Friðarkveðja, nemendur og starfsfólk Árskóla