Fjölbreytni í desember

Frá friðargöngu Árskóla
Frá friðargöngu Árskóla

Desembermánuður í Árskóla einkennist að venju af fjölbreyttu og lifandi skólastarfi þar sem hefðbundið nám fléttast saman við viðburði sem lýsa upp skammdegið. 

Friðarganga var föstudaginn 28. nóvember þar sem gengið var frá Árskóla að kirkjunni og ljósið fært upp á Nafir og krossinn þar lýstur upp. Friðargangan er mikilvæg hefð í skólanum þar sem lögð er áhersla á samstöðu og ósk um frið á tímum sem kalla á samkennd. Að göngunni lokinni var boðið upp á kakó og piparkökur á skólalóðinni.

Miðvikudaginn 3. desember var jólakorta- og stofuskreytingadagur þar sem nemendur unnu að metnaðarfullri kortagerð og skreytingum í stofum sínum. Dagurinn einkenndist af sköpunargleði og notalegri stemningu.

Fimmtudaginn 4. desember hélt 7. bekkur kökubasar í Skagfirðingabúð og föstudaginn 5. desember var haldinn svokallaður rauður dagur þar sem margir mættu rauðklæddir í skólann. Sama dag var einnig boðið upp á jólate á yngsta stigi í hádeginu þar sem nemendur, foreldrar og starfsfólk áttu notalega stund saman. 

Fimmtudaginn 11. desember er Lúsíudagurinn haldinn hátíðlegur líkt og verið hefur í fjölda ára í Árskóla. Nemendur í 6. bekk fara víða um bæinn og syngja. Lúsíusöngdagskráin endar í matsal skólans kl. 16:30 þar sem allir eru velkomnir.

Föstudaginn 12. desember er danskt jólaþema á unglingastigi í tengslum við dönskunám undanfarið þar sem fjallað hefur verið um danska jólahefð fyrr og nú. Opið hús er fyrir aðstandendur kl. 10:30-12:20 þar sem nemendur vinna í sex smiðjum: æbleskiver/ris a la mande/pynte peberkager, smørrebrød og frikadeller, konfekt, flettede julehjerter og danske julesange, flagranker og kræmmerhus, spille kort. Gestum er boðið að fylgjast með vinnu nemenda og smakka á dönskum krásum og jólaglöggi. 

Skólastarfinu fyrir jól lýkur föstudaginn 19. desember með hefðbundnum stofujólum sem hefjast á stuttri jólatrésskemmtun í íþróttahúsi. 

Að framansögðu er ljóst að í desember er lögð áhersla á fjölbreytni, sköpun, samveru og menningu samhliða öflugu námi. Við þökkum nemendum, starfsfólki og foreldrum fyrir ánægjulega þátttöku í skemmtilegum viðburðum.