Bókagjöf til 6. bekkinga frá Sauðárkróksbakaríi

Frá afhendingu bókanna til skólastjórnenda.
Frá afhendingu bókanna til skólastjórnenda.

Á stofujólunum í morgun fengu nemendur í 6. bekk afhenta bók að gjöf frá Sauðárkróksbakaríi, sem hvatningu til nemenda til lesturs yfir jólin. Skólasafnið fékk einnig tvö eintök. Bókin er Ofurhetjan eftir Hjalta Halldórsson grunnskólakennara og rithöfund og fjallar um krakka á þeirra aldri sem berjast við einelti. Bókinni fylgdi jafnframt eftirfarandi kveðja frá höfundi með ósk um að spjalla við krakkana um bókina í gegnum fjarfundabúnað eftir jól: 

„Kæri lesandi. Þú hefur nú fengið í hendurnar Ofurhetjuna. Bókin fjallar um leit aðalpersónunnar Gulla að ofurkraftinum sem mun breyta lífi hans til hins betra. Ég ætla ekki að ljóstra upp hvað gerist í bókinni en samt langar mig að segja þér leyndarmál. Þú ert ofurhetja. Innra með þér býr kraftur sem getur breytt lífi þínu, lífi annarra eða jafnvel heiminum öllum! Þú þarft bara að finna hann. Finndu kraftinn innra með þér og vertu ofurhetja! Með lestrarkveðju, Hjalti.“

Við færum starfsfólki Sauðárkróksbakarís bestu þakkir fyrir þessa góðu gjöf til nemenda 6. bekkjar og skólasafnsins.