See The Good

Árskóli fékk góða heimsókn frá Finnlandi nýverið þegar þær stöllur Kaisa og Elina kynntu fyrir öllu starfsfólki Árskóla aðferðafræðina “See the good” en hún gengur út á að vinna með styrkleika nemenda í anda jákvæðrar sálfræði. Unnið er markvisst með nemendum til að þeir átti sig á eigin styrkleikum og hvernig þeir nota sína styrkleika við mismunandi aðstæður. Við eflumst öll í því sem við þjálfum reglubundið og því er unnið að því að efla þá styrkleika sem nemendur sjálfir telja að þurfi bætingu. Með þessum hætti styrkist bæði tilfinningalæsi og sjálfsmynd nemenda auk þess að þau verða meðvitaðri um styrkleika annarra í kringum sig. Rannsóknir í jákvæðri sálfræði hafa sýnt að það að þekkja og nýta styrkleika sína, eiga góð félagsleg samskipti og efla tengsl við aðra stuðlar að aukinni andlegri vellíðan. Og nemendum sem líður vel læra betur. Þessi jákvæðni og uppbyggileg samskipti hafa vissulega alltaf verið partur af skólamenningu Árskóla, en með “See the good” fær allt starfsfólk og nemendur skólans fleiri verkfæri í hendurnar til að vinna á fjölbreyttan hátt með styrkleika hvers og eins. Þessi aðferðafræði hefur verið innleidd í fjölda skóla í Finnlandi og Svíþjóð á undanförnum árum. Árskóli fékk á dögunum veglegan styrk frá barna og menntamálaráðuneytinu til þess að innleiða þessa aðferðafræði.

Skólafólk frá Árborg, Þorlákshöfn og Ólafsvík auk Grunnskólans Austan vatna og Varmahlíðarskóla voru boðin velkomin með Árskóla á námskeiðið til að kynna sér aðferðafræðina.