6.kafli - Stoðþjónusta

Í Árskóla er lögð áhersla á að koma til móts við alla nemendur.  Jafnrétti til náms er haft að leiðarljósi þar sem stuðlað er að alhliða þroska og menntun nemenda í samræmi við grunnskólalög. Í núgildandi lögum um grunnskóla frá 2008, 2. grein, stendur að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. 

Í 17. grein laganna segir að nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir, eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Í 13. gr. laganna kemur jafnframt fram að nemendur eigi rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa. Markmið stoðþjónustu Árskóla er að mæta þörfum þessara nemenda með sérkennslu, stuðningskennslu og/eða öðrum sértækum úrræðum. Til þess að ná fyrrgreindum markmiðum er áhersla lögð á að meta námsþarfir hvers nemanda fyrir sig, sveigjanlega kennsluhætti og þverfaglega samvinnu. Í skólanum er lögð áhersla á gott samstarf allra þeirra sem að nemandanum koma, bæði utan skóla og innan, til þess að ná sem bestum árangri. Markvisst er unnið að þessum markmiðum með teymisvinnu þeirra sem að nemendum koma hverju sinni.