Heilbrigði og velferð

Skólar þurfa að leggja grunn að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð nemenda til lífstíðar. Umhverfi skóla þarf að vera heilsueflandi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði hvers og eins. Nemendur þurfa markvisst hreyfiuppeldi þar sem lögð er áhersla á fræðslu, að efla hreyfifærni og að hvetja nemendur almennt til hreyfingar. Mennta þarf nemendur og styðja þá þannig að þeir geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði. Allir nemendur þurfa að fá tækifæri til að njóta styrkleika sinna. Með skýrum markmiðum skóla um líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði nemenda er stuðlað að jákvæðum skólabrag, bættum námsárangri og vellíðan nemenda. 

Unnið er eftir sérstakri forvarnaráætlun grunnskólanna í Skagafirði og markmiðum heilsueflandi grunnskóla. Í skólanum er góð aðstaða til íþróttaiðkunar. Skólinn tekur þátt í sameiginlegum verkefnum á landsvísu, s.s. Göngum í skólann og Skólahreysti. Lögð er áhersla á reglubundna uppbyggilega forvarnarfræðslu. Unnið er skv. ráðleggingum Embættis landlæknis um næringu og hollustu í mötuneyti skólans. Öflugt stoðkerfi og rík hefð fyrir teymisvinnu um málefni nemenda  stuðlar að velferð hvers einstaklings. Nemendur fá reglubundna fræðslu um heilbrigði og velferð, bæði innan námsgreina og í erindum t.a.m. frá skólahjúkrunarfræðingi. Nemendur 8. – 10. bekkjar fá sérstaka umsjónartíma í upphafi hvers dags með umsjónarkennara sínum til að fara yfir ýmis mál. Í lífsleikninámi í öllum árgöngum er unnið að heilbrigði og velferð nemenda, s.s. að eflingu jákvæðrar sjálfsmyndar og góðra samskipta. Mikil áhersla er einnig lögð á góð samskipti heimila og skóla sem almennt stuðlar að velferð nemenda.