Námsgögn

Námsgögn gegna þýðingarmiklu hlutverki í námi. Samkvæmt grunnskólalögum eiga nemendur að fá námsgögn til afnota sér að kostnaðarlausu í þeim námsgreinum sem Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um. Til námsgagna telst allt það efni sem notað er til að ná námsmarkmiðum skólans. Má þar nefna prentað efni, s.s. námsbækur, handbækur og leiðbeiningarrit, ýmiss konar myndefni, s.s. ljósmyndir, kvikmyndir, myndbönd, veggspjöld, hljómbönd og hljómdiska, tölvuforrit, efni á netinu, margmiðlunarefni, efni til verklegrar kennslu o.fl. Skólinn hefur til umráða ákveðinn úthlutunarkvóta vegna námsbókakaupa frá Menntamálastofnun. Einnig er ákveðið svigrúm til kaupa efni annars staðar frá. Áhersla er lögð á að fylgjast vel með útgáfu nýrra námsgagna og að til sé úrval náms- og kennslugagna, er taki mið af grunnþáttum menntunar. 

Áhersla er lögð á að nemendur gangi vel um námsbækur og gögn sem þeir hafa undir höndum. Nemendur bera ábyrgð á námsgögnum sem skólinn lánar þeim og þurfa að skila þeim í viðunandi ástandi.

Frá hausti 2017 hafa nemendur fengið námsgögn s.s. skriffæri, ritföng, stílabækur og slíkt sér að kostnaðarlausu.