Eineltisáætlun

Í Árskóla er einelti ekki liðið. Leitað er allra leiða til að uppræta einelti. Starfað er eftir hinni norsku Olweusaráætlun sem er forvarnar- og viðbragðsáætlun varðandi einelti. Í skólanum starfar lykilmannateymi sem hefur það hlutverk að halda utan um fræðslu og forvarnarstarf í skólanum, samkvæmt Olweusaráætlun. Oddviti teymisins er tengiliður lykilmannahóps við stjórnendur og annað starfsfólk. Fræðslu- og forvarnarfundir eru haldnir reglulega með starfsfólki þar sem eðli og birtingarmyndir eineltis eru ræddar svo hægt sé að bregðast við vandanum með sem bestum hætti. Allt starfsfólk skólans tekur virkan þátt í baráttunni gegn einelti en umsjónarkennarar gegna þar lykilhlutverki. Umsjónarkennarar halda bekkjarfundi reglulega með nemendum þar sem m.a. forvarnarstarf gegn einelti fer fram. Nemendur eru fræddir um orsakir og eðli eineltis; allt í því skyni að koma í veg fyrir vandann. Árlega er baráttudagur gegn einelti haldinn hátíðlegur með skipulagðri vinnu nemenda og starfsmanna.

Ennfremur vinnur skólinn eftir viðbragðsáætluninni Stefna og viðbragðsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni komi slíkar aðstæður upp í starfsmannahópnum.

Hvað er einelti? 

Samkvæmt skilgreiningu Olweusar og annarra norrænna fræðimanna er einstaklingur lagður í einelti ef hann eða hún verður fyrir neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil. 

„Það er neikvæður og/eða ofbeldiskenndur verknaður ef einhver veldur öðrum viljandi tjóni eða óþægindum – með líkamlegri snertingu, í orði eða á annan hátt. Við tölum ekki um einelti nema þessu til viðbótar sé um að ræða aflsmun, þegar sá sem verður fyrir þessum neikvæða verknaði á erfitt með að verja sig og er harla varnarlaus gagnvart þeim (einum eða fleiri), sem angrar hann eða hana. 

Þrennt einkennir eineltishugtakið, samkvæmt ofangreindri skilgreiningu: 

  • Árásarhneigt (ýgt-) eða illa meint atferli. 

  • Um er að ræða endurtekningu sem stendur yfir ákveðinn tíma. 

  • Ójafnvægi afls og valda í samskiptum.” 

(Úr handbók um Olweusaráætlunina, útg. 2005, bls. 28). 

Ítarlegri áætlun gegn einelti er að finna hér