Punktakerfi

Skólasókn og punktakerfi

Í lok hverrar annar fá nemendur í 5.- 10. bekk einkunn fyrir skólasókn sem byggir á mætingu nemenda í skólann. Þessari einkunn er fyrst og fremst ætlað að mæla skólasókn og stundvísi en einnig hegðun að nokkru marki. Nemandi byrjar með einkunnina 10 sem felur í sér 100 punkta. Komi nemandi of seint eru 2 punktar dregnir frá, mæti nemandi ekki í kennslustund dragast 5 punktar frá, sé nemanda vikið úr tíma dragast 10 punktar frá.

Til að auka aðhald og árangur í námi er punktakerfi viðhaft í 8. –10. bekk. Skráning fer þannig fram að kennarar á unglingastigi skrá í Mentor ákveðin atriði, þ.e. ef nemandi mætir bókarlaus í kennslustund, lærir ekki heima, vinnur ekki í kennslustundum, truflar mikið í kennslustundum, notar I-Pod, síma, tyggjó, fer ekki úr yfirhöfnum o.þ.h.

Skráningunni er skipt í tímabil sem er frá fimmtudegi til miðvikudags. Ef nemandi fær 5 punkta eða fleiri ræðir umsjónarkennari hans við hann. Gerist þetta aftur hringir umsjónarkennari heim og ítrekar punktastöðu nemandans. Í þriðja sinn sem nemandi fær 5 punkta hringir umsjónarkennari heim og boðar foreldri ásamt nemanda til viðtals.

Breytist ekkert við það vísar umsjónarkennari máli nemandans til deildarstjóra. Líði tvær vikur samfleytt án þess að nemandi fái punkt, falla þeir punktar niður sem þegar eru skráðir, þó aldrei fleiri en 4 í senn. Þeim nemendum sem hafa 4 punkta eða færri í annarlok verður umbunað, t.d. með kvikmyndasýningu.